Stærsti banki Bandaríkjanna, Bank of America (BofA), hefur keypt greiðslukorta- og fjármálafyrirtækið MBNA fyrir 35 milljarða dollara. Markmiðið með kaupunum er að auka við kreditkortaviðskipti bankans og auka þjónustu. Forsvarsmenn BofA sögðu að með samningnum yrði bankinn einn stærsti útgefandi greiðslukorta í landinu. Með kaupunum tvöfaldast fjöldi virkra greiðslukortareikninga í 40 milljónir.

"Fjáfestingin er jákvæð fyrir viðskiptavini okkar og hluthafa, þar sem hlutdeild okkar á markaði vex," segir Kenneth D Lewis, forstjóri bankans. "Að auki getum við bætt þjónustu við núverandi viðskiptavini og framtíðarviðskiptavini bankans." Þetta er í annað skipti sem bankinn gerir yfirtöku af þessari stærðargráðu frá því að Lewis tók við forstjórastóli árið 2001. Bankinn keypti FleetBoston fyrri 48 milljarða dollara í fyrra.

Bruce Hammonds, forseti og forstjóri MBNA, sagði að samningurinn myndi verða til þess að fyrirtækið kæmist inn á nýja markaði, með nýjum viðskiptavinum, vörum og vaxtartækifærum. "Bæði fyrirtækin munu hagnast þar sem viðskiptavinir MBNA munu skipta við bankann og öfugt."

Hluthafar í MBNA munu fá 0,5009 hlutabréf í bankanum auk 4,12 dollara fyrir hvert hlutabréf í fyrirtækinu. Sé miðað við stöðu bréfa í bankanum við lokun markaða þann 28. júní mun bankinn greiða út 35 milljarða dollara eða 27,5 dollara á hvert bréf í MBNA.

Forsvarsmenn BofA segja viðbúið að fyrir árslok 2007 verði 850 milljóna dollara sparnaður að frádregnum sköttum vegna sameiningarinnar. Gert er ráð fyrir að starfsfólki verði fækkað um 6 þúsund auk þess sem sparnaður hlýst af samnýtingu á tækni og ýmissa annarra þátta í rekstri fyrirtækjanna.