„Áhugamálin eru flest nátengd vinnunni, að hlusta á útvarp og horfa á sjónvarp, mest fréttir,“ segir Bogi Ágústsson, frétta- og dagskrárgerðarmaður á Rúv.

Bogi segist ekki síst hafa gaman af því að horfa á fréttir frá stórum og litlum svæðisstöðvum og að BBC Channel Islands sé gott dæmi: „Ég hef einnig mjög gaman af því að horfa á fréttir Kringvarpsins í Færeyjum þar sem góður kunningi og nafni, Bogi Godtfred, er einn helsti fréttaþulurinn. Þegar ég er á lestrarvakt á fréttastofu Ríkisútvarpsins fer ég í vinnuna um hádegisbilið og stundum hlusta ég þá á írska ríkisútvarpið RTE á morgnana og oft er dásamlegt að heyra hversu margt er líkt með umræðunni þar og á Íslandi. Ég reyni einnig að fylgjast vel með umræðu á Norðurlöndunum og er mikill áhugamaður um að viðhalda nánum tengslum við þessar frændþjóðir,“ segir Bogi.

En það eru ekki bara fréttir sem Bogi fylgist með. „Umtalsverður tími fer í að fylgjast með íþróttum, ekki síst fótbolta. Á sumrin sé ég nánast alla heimaleiki KR. Að vetrarlagi fylgist ég með gengi nokkurra erlendra liða og það skrýtna er að ég vil allt eins hlusta á útvarpslýsingar eins og horfa á leiki. Það gildir hins vegar ekki um þá íþróttagrein sem afar fáir á Íslandi fylgjast með: skíðaskotfimi. Til að njóta skíðaskotfimi verður maður að horfa. Fáar íþróttagreinar eru jafn dramatískar, staðan getur breyst í einu vetfangi og það er ekki fyrr en keppendur hafa skotið í síðasta sinn sem staðan verður nokkuð ljós."

Bogi og aðrir vel valdir einstaklingar segja frá áhugamálum sínum í nýjasta tölublaði Eftir vinnu sem kom út með Viðskiptablaðinu á dögunum. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér.