Frekari skattlagnin á ferðaþjónustuna mun draga úr fjölda ferðamanna og minnka umsvif ferðaþjónustunnar í landinu.

Þetta sagði Bogi Nils Bogason, framkvæmdastjóri fjármála hjá Icelandair Group, á skattadegi Deloitte sem nú stendur yfir.

Bogi Nils varaði við aukinni skattheimtu á þætti ferðaþjónustunnar. Hann sagði aukna skattheimtu ekki einungis skaða fyrirtæki í ferðaþjónustu heldur efnahagslífið í heild. Auknar skattheimtur myndu bæði draga úr fjölda ferðamanna og eins draga úr neyslu ferðamanna hér á landi. Því væri óráð að hækka skatta frekar, t.d. með gistináttagjaldi og komugjaldi sem iðulega væri rætt um að hækka.

Í upphafi erindis síns sagði Bogi Nils að skattahækkanir síðustu ára hefðu fyrst og fremst bitnað á Flugfélagi Íslands og innanlandsfluginu. Þar nefndi Bogi Nils sérstakan kolefniskatt en auk þess ætti nú að hækka lendingargjöld.

Bogi Nils fjallaði í stuttu máli um rekstur og umfang Icelandair Group í ferðaþjónustunni hér á landi. Hann nefndi sem dæmi nýjar flugleiðir til Seattle og Washington DC í Bandaríkjunum, en báðar þessar flugleiðir bættust inn í leiðarkerfi Icelandiar árin 2009 og 2011. Bogi Nils sagði að ein svona flugleið velti svipuðu magni fjármagns og góður frystitogari. Því væri mikilvægt að huga vel að frekari vexti í ferðaþjónustunni, en frekar skattheimta myndi frekar draga úr umfangi ferðaþjónustunnar.

Þá vísaði Bogi Nils til biturrar reynslu hollenskra stjórnvalda sem fyrir nokkrum árum ákváðu að leggja á svokallað komugjald á flugfarþega. Þannig sýndi Bogi Nils línurit þar sem vel sést hvernig flugfarþegum snarfækkaði í kjölfarið enda lagðist gjaldið eðli málsins samkvæmt á hvern flugmiða. Svo fór að gjaldið var lagt af innan 12 mánaða. Hins vegar var skaðinn mikill og gjaldið kostaði hollenskt efnahagslífi stórfé.

Bogi Nils sagði að hér væri því aftur og aftur velt upp að hækka komugjald á flugfarþega. Hann sagði að stjórnvöld ættu að sýna kapp með forsjá, slíkar hækkanir myndu án efa draga úr fjölda ferðamanna. Hann sagði að allt útlit væri fyrir mikla aukningu ferðamanna á næstu árum og því ætti stefna stjórnvalda að taka mið af því.