Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, hefur sent flugfreyjum félagsins tölvupóst þar sem hann hvetur þær til að kynna sér til tilboð Icelandair til Flugfreyjufélags Íslands vel. Með póstinum fylgir tilboð Icelandair og skýringar félagsins á því. Flugfreyjufélagið birti flugfreyjum fyrr í vikunni sína túlkun á tilboðinu þar sem fullyrt var að tekjuskerðing flugfreyja yrði allt að 40% á samningstímanum. Því hefur Bogi mótmælt.

Samningafundi Flugfreyjufélagsins og Icelandair var slitið í dag án niðurstöðu og ekki liggur fyrir hvenær nýr fundur verður haldinn. Bogi hefur sagt að semja þurfi til langs tíma fyrir hluthafafund 22. maí svo bjarga megi félaginu.

„Icelandair rær nú lífróður og höfum við því miður neyst til þess að segja upp stórum hluta starfsfólks okkar. Við vinnum nú í kapphlaupi við tímann að því að tryggja framtíð félagsins til lengri tíma og störf okkar allra,“ segir Bogi í bréfinu.

Hann bendir á að ríkisstjórnin hafi gefið félaginu vilyrði um stuðning gegn því að fjárfestar taki þátt í hlutafjárútboði á markaðslegum forsendum. „Til þess að fjárfestar komi inn með nýtt hlutafé á þessum óvissutímum verðum við að geta sýn fram á að rekstrarhorfur félagsins til lengri tíma séu bjartar. Þess vegna er verið að horfa til allra kostnaðarliða í rekstri félagsins sem við höfum stjórn á,“ segir Bogi.

Lítið flugfélag í harðri samkeppni

„Við erum lítið flugfélag á gríðarlega hörðum alþjóðlegum samkeppnismarkaði og verðum að geta sýnt fram á aukinn sveigjanleika og samkeppnishæfni til lengri tíma," segir Bogi í bréfinu.

Bogi bendir á að samningar Icelandair og Flugfreyjufélagsins byggi á gömlum forsendum þegar samkeppnisstaða var gjörólík því sem nú er. Í samningunum séu ákvæði sem snúi að vinnuframlagi flugáhafna sem hafi neikvæð áhrif á sveigjanleika félagsins til samkeppni, til dæmis getu til að fljúga til nýrra áfangastaða. Markmið með nýjum kjarasamningi sé að auka sveigjanleika „en tryggja á sama tíma fyrirmyndar vinnuumhverfi og samkeppnishæf kjör til framtíðar.“

Hann bendir á að SAS og Finnair, sem Icelandair beri sig saman við hafi á liðnum áratug gert sambærilegar breytingar á kjarasamningum við áhafnir.

Fækka stjónunarstöðum um borð úr tveimur í eina

Bogi segir að meðal breytinga sem Icelandair fer fram á er að ein stjórnunarstaða verði um borð í stað tveggja. Það sé í samræmi við fyrirkomulag sambærilegra flugfélaga. Lagt til að hægt verði að fjölga leiguflugum með því að fella niður sérstakar greiðslur og önnur ákvæði varðandi þau en í stað þess gildi almennar vaktatímareglur. Þá sé óskað eftir frekari sveigjanleika hvað varðar ákvæði um flug, vaktir og hvíldartíma sem séu til þess fallin að efla leiðakerfið og rekstur þess. Einnig að boðið verði upp á aukinn sveigjanleika hvað varðar hlutastörf og lagt til að lausráðið starfsfólk geti létt á helgarvöktum yfir vetrartímann.

„Þið flugfreyjur og -þjónar hjá Icelandair eigið stóran þátt í því að skapa þá góðu ímynd sem félagið státar af. Það er mikilvægt að við tryggjum framtíð Icelandair Group í sameiningu með það að markmiði að starfsfólk geti snúið aftur til starfa,“ segir Bogi í lok bréfsins.

Ósátt við sendinguna

Flugfreyjufélagið er ósátt við bréfasendingar Boga. Sigrún Jónsdóttir, for­maður samninganefndar Flug­freyju­fé­lagsins, segir að  með þessu sé Icelandair að ganga á bak loforða um að grípa ekki inn í deilurnar með þessum hætti að því er Fréttablaðið greinir frá. Icelandair sendi sambærilegt bréf á flugmenn í vikunni sem forsvarsmenn Flugmannafélags Íslands eru einnig ósáttir við.