Straumur-Burðarás Fjárfestingarbanki hefur boðið starfsmönnum sínum að tengja laun sín við evru. Að sögn Jóhönnu Vigdísar Guðmundsdóttur, forstöðumanns samskiptasviðs bankans, var starfsmönnum greint frá þessu fyrir stuttu. Er gert ráð fyrir að þeir sem það kjósa geti tengt laun sín, eða hluta launa sinna, við evru frá og með næstu mánaðamótum. Þetta kemur fram í Viðskiptablaðinu í dag.

Eftir því sem næst verður komist er Straumur-Burðarás fyrsta fyrirtækið til að bjóða starfsmönnum sínum upp á slíkt en félagið hefur greitt stjórnarmönnum í evrum um nokkurt skeið.

"Þetta er ákvörðun sem hver og einn starfsmaður tekur út frá sínum hagsmunum. Þetta getur verið hagstætt fyrir þá sem eru með húsnæðis- og bílalán í erlendum myntum og eru þeir þá varðari gegn gengissveiflum en þeir sem ekki hafa þennan kost," sagði Jóhanna. Hún tók fram að það væri enginn þrýstingu  á að fólk gerði þetta af hálfu bankans og fólk gæti kosið að tengja laun sín við evru síðar kjósi það ekki að gera það strax. Jóhanna sagði aðspurð að henni virtist fólk vera nokkuð jákvætt fyrir því að skoða þennan möguleika þó það sé að sjálfsögðu persónubundið hvað henti hverjum og einum. Á þessari stundu væri ekki hægt að segja hve margir starfsmenn bankans myndu taka þessu tilboði.

Bókhald og reikningar Straums-Burðaráss Fjárfestingarbanka eru nú gerðir í evrum og aðalfundur félagsins veitti heimild til að skrá hlutafé í evrum. Þess má geta að á aðalfundi félagsins var samþykkt að breyta um nafn á bankanum og er sú vinna enn í gangi.

Í gær var greint frá því að mannabreytingar yrðu á sviði eigin viðskipta bankans. Þar kom fram að nýir menn munu allir starfa á sviði eigin fjárfestinga með aðsetur utan Íslands. Í Vegvísi Landsbankans var bent á að þessar ráðningar muni styrkja bankann í uppbyggingu utan Íslands og þeim sé ætlað að auka starfsemi bankans á Norðurlöndum og á Bretlandseyjum.