Í dag kemur út bók, Lífið á efstu hæð, sem fjallar um eftirlaunasparnað og leiðir til að stuðla að góðum eftirlaunum. Bókin verður kynnt á útgáfufundi í kvöld á Grand Hótel Reykjavík klukkan 17:00. Hér er hægt að skrá sig á fundinn.

Gunnar Baldvinsson, höfundur bókarinnar, kynnir bókina en einnig mun Kristrún Frostadóttir, hagfræðingur Kviku, flytja erindi og velta fyrir sér áhrifum þess á íslenskt samfélag að á næstu árum mun eftirlauna­þegum á Íslandi fjölga mun meira en fólki á vinnualdri. Fundurinn er öllum opinn.

Lífið á efstu hæð fjallar um eftirlaunasparnað og leiðir til að stuðla að góðum eftirlaunum. Á næstu 10 árum munu þrjátíu þúsund Íslend­ingar láta af störfum og fara á eftirlaun. Eftir 25 ár verða 20% lands­manna á eftirlaunum og eftir miðja öldina verður hlutfallið komið yfir 25%.

  • Hvað geta einstaklingar reiknað með að fá í eftirlaun þegar þeir láta af störfum?
  • Hvað geta þeir gert ef þeir vilja stuðla að hærri eftirlaunum?
  • Hvenær á að hefja töku eftirlauna?
  • Hvað á að gera þegar taka eftirlauna hefst?

Í bókinni er leitast við að svara þessum spurningum og benda á leiðir til að stuðla að góðum eftir­launum. Meðal annars er sérstök umfjöllun um hálfan lífeyri sem getur hentað einstaklingum sem vilja draga úr vinnu eða vera lengur á vinnumarkaði og þá í allt að hálfu starfi. Í bókinni eru einnig ráð um ávöxtun, erfðamál og varnir gegn tekjumissi vegna veikinda eða slysa.

Lífið á efstu hæð á erindi til allra sem vilja stuðla að góðum eftirlaunum. Hún er jafnt fyrir þá sem eiga langt eða stutt í eftirlaun og fyrir þá sem fara á eftirlaun fljótlega.