Formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna, Davíð Þorláksson, segist ekki gera ráð fyrir neinni gríðarlegri sölu á bókinni Málþóf, sem SUS hefur gefið út. Í bókinni, sem er 407 síður að lengd, er lengsta þingræða Íslandssögunnar birt í heild sinni. Ræðan var flutt af Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, á Alþingi frá kl. 12:27 fimmtudaginn 14. maí 1998 til kl. 00:37 föstudaginn 15. maí 1998 og fjallaði hún um húsnæðismál.

„Ég á ekki von á gríðarlegri sölu, enda er þetta ekki mikil skemmtilesning, en sumir vilja þó væntanlega eiga eintak af ræðunni,“ segir Davíð. Hann segir hugmyndina að útgáfunni hafa orðið til fyrir nokkru, þegar Jóhanna var sjálf að saka Sjálfstæðisflokkinn um málþóf. „Við ákváðum að kanna hvað ræða hennar var löng í kiljubroti og tókum svo ákvörðun um útgáfu núna því aftur hefur blossað upp þessi umræða um meint málþóf Sjálfstæðisflokksins í stjórnarskrár- og kvótamálunum.“

Bókin er prentuð eftir pöntun á vefsíðu SUS og er því ekki um eiginlegt upplag af bókinni að ræða. Davíð segist sjálfur ekki vera búinn að lesa bókina frá upphafi til enda. „Ég leyfi mér reyndar að efast um að nokkur maður hafi lesið ræðuna alla frá því að þingritari skrifaði hana upp á sínum tíma, en ef einhver er til sem hefur mikinn áhuga á því sem var helst á baugi í húsnæðismálum árið 1998 þá er þetta bókin fyrir hann. Ég hef hins vegar gluggað í bókina á nokkrum stöðum, en þótti þetta frekar flatt og ekki eftirminnilegt. Það má hins vegar segja Jóhönnu til hróss að það þarf ansi öfluga manneskju til að flytja þetta allt saman eins og hún gerði á sínum tíma.“

Aðspurður segir Davíð að spurningin um mögulegan rétt Jóhönnu á höfundarlaunum sé ekki skýr. „Sá sem í raun skrifar textann upphaflega er starfsmaður Alþingis, sem svo birtir hana opinberlega á netinu. Ef hún vill hins vegar hafa samband við okkur og fá einhverja prósentu af sölunni þá er það ekkert vandamál.“