Kínverjar hafa ekki beðið boðanna eftir að tilkynnt var um afléttingu sóttvarnaraðgerða í landinu en mikill fjöldi þeirra hefur þegar bókað sér utanlandsferð, að því er BBC greinir frá.

Það ætti svo sem ekki að koma á óvart að fjöldi Kínverjar vilji svala ferðaþorstanum, enda strangar takmarkanir verið í gildi á landamærum landsins í nærri þrjú ár eða allt frá því að Covid-19 faraldurinn fór á kreik í landinu. Kínversk yfirvöld hafa greint frá því að almenningur geti sótt um vegabréfsáritanir vegna ferðalaga erlendis frá 8. janúar.

Það stefnir þó í að kínverskir ferðalangar muni ekki hafa óheftan aðgang að öllum löndum heimsins. Til að mynda íhuga bandarísk yfirvöld að grípa til aðgerða sem beinast að þeim sem ferðast til landsins frá Kína. Yfirvöld vestanhafs hafa áhyggjur af hve mikil útbreiðsla veirunnar er sem sakir standa í Kína og þeirri leyndarhyggju sem einkennt hefur kínversk stjórnvöld í Covid tengdum málefnum.

Þá hefur Japan, sem er einn vinsælasti áfangastaður kínverskra ferðamanna, greint frá því að allir kínverskir ferðamenn verði að sýna fram á neikvætt Covid-19 próf, eða sæta sóttkví í eina viku, til að fá inngöngu í landið.