Eigendur Bókabúðar Máls og menningar á Laugavegi 18 hafa ákveðið að loka versluninni. Litlar líkur eru taldar á að hún verði opnuð á ný. Forsvarsmenn fyrirtækisins greindu starfsmönnum þess frá tíðindunum á fundi í gærkvöldi. Fréttablaðið greinir frá þessu í dag.

Í blaðinu er haft eftir Jóhannesi Sigurðssyni, stjórnar­formanni Bókabúðar Máls og menningar ehf., að það séu mikil vonbrigði að þurfa að loka versluninni. „En við þurftum að játa okkur sigraða því við ofurefli er að etja. Verslun af þessari tegund, og þrátt fyrir að hún njóti mikillar velvildar fólksins í landinu, getur aldrei keppt við bankana meðan þeir beita afli sínu eins og hér var raunin á."

Miklar sviptingar hafa verið í rekstri verslunarinnar undanfarin ár. Fyrirtækið Kaupangur, sem er í eigu Jóhannesar og Bjarka Júlíussonar, keypti húseignina á Laugavegi 18 árið 2007 en þá hafði Penninn, sem eftir gjaldþrot var í eigu Kaupþings banka, nú Arion banka, keypt rekstur bókabúðarinnar. Bankinn og Kaupangur náðu ekki samningum um leigu á húsnæðinu og því samstarfi lauk. Þá opnaði Arion banki bókaverslun í húsnæði fyrrum aðalútibús SPRON á Skólavörðustíg undir merkjum Pennans Eymundssonar, en það húsnæði er einnig í eigu bankans.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er 90% af allri verslun með ritföng og bækur á hendi bankanna.