Eva Silvernail, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs hótelkeðjunnar Center Hotels, segir að þetta sumar sé undir væntingum hvað bókanir hótelherbergja varðar að því er kemur fram í frétt Morgunblaðsins. Hún segir að sumrin séu alltaf góð, en að styrking krónunnar hafi áhrif og að ferðamenn séu farnir að verða viðkvæmari fyrir verðinu. Eftirspurnin er farin að minnka að hennar sögn.

Hún tekur enn fremur fram að hluti af minni eftirspurn skýrist einnig af framboði á bæði hótelherbergjum og af leyfislausri Airbnb-gistingu hafi aukist.

Auður Anna Ingólfsdóttir, hótelstjóri Icelandair Hótel Hérað á Egilsstöðum segir að það hafi aldrei verið eins lítið að gera að vetri til eins og hafi verið síðasta vetur á hótelinu og hefur hún starfað þar í 20 ár. Auður Anna segir að það vanti alla Íslendingatraffíkina. „Það er mjög dýrt að fljúga hingað, en dýrasta flugfarið kostar um 50 þúsund krónur fram og til baka. Fyrirtæki virðast til dæmis frekar fara til útlanda með árshátíðir og fundi,“ segir hún.