Bókanir til Íslands, Portúgals og Gíbraltar frá Bretlandi hafa tekið stökk eftir að stjórnvöld í Bretlandi tilkynntu um að löndin væru á svokölluðum grænum lista. IATA , Alþjóðasamtök flugfélaga, greina frá.

Þessir þrír áfangastaðir námu um 6% af öllum utanlandsferðum breskra ferðamanna árið 2019. Eftir að tilkynnt var um að þessi lönd væru á grænum lista jukust bókanir hlutfallslega til þessara áfangastaða um 40% frá árinu 2019. Ferðamenn frá Bretlandi sem að ferðast til landa á græna listanum þurfa ekki að fara í sóttkví og þurfa eingöngu að fara í skimun fyrir brottför og stuttu eftir heimkomu.

Ásamt græna listanum eru einnig rauður og gulur listi. Mælt er gegn því að fara til landa sem eru gul og þurfa ferðamenn að fara í tvær skimanir og sóttkví við heimkomu. Vinsælir ferðamannastaðir eins og Spánn, Ítalía og Frakkland eru á þeim lista. Þeir sem að koma frá rauðum löndum þurfa að fara í sóttkvíarhótel í 11 daga og greiða 300 þúsund krónur fyrir dvölina. Lönd eins og Tyrkland, Indland og Brasilía eru á þeim lista.