William Lynch, forstjóri bandarísku bókaverslunarinnar Barnes & Noble, kynnti í gær nýja spjaldtölvu fyrirtækisins. Tölvan heitir Nook Tablet og virðist, að sögn þeirra bandarísku fjölmiðlamanna sem hafa höndlað gripinn, sett á markað til höfuðs Kindle Fire-tölvu netverslunarinnar Amazon.

Kindle Fire-tölvan kemur á markað 15. nóvember næstkomandi en Nook-tölvan tveimur dögum síðar. Hægt er að panta Nook-tölvuna í forsölu nú þegar.

Spjaldtölvan frá Barnes & Noble er með sjö tommu skjá og mun kosta 249 dali, tæpar 47 þúsund krónur hingað komin með gjöldum.

Tölvan er með snertiskjá og nýja vegur rétt tæp 400 grömm. Hún er með 1GHz-örgjörva, 1 GB í vinnsluminni og 16 GB í innra minni. Það er helmingi meira minni en Kindle Fire-tölvan hefur yfir að ráða. Minni Nook-tölvunnar má jafnframt stækka með minniskorti.

Þá getur tölva Barnes & Noble tengst staðarneti (w. Wi-Fi). Hún á það hins vegar sameiginlegt við spjaldtölvuna frá Amazon að hún styður ekki við þriðju kynslóð í gagnaflutningstækni. Fram kemur í USA Today að rafhlaða tölvunnar endist í 11 og hálfa klukkustund við bóklestur en í níu stundir ef horft er á kvikmyndir í tölvunni. Tölvan á það jafnframt sameiginlegt með tölvunni frá Amazon að hún er ekki með innbyggða myndavél.

William Lynch, forstjóri Barnes & Noble, segir í samtali við USA Today í dag að heildarvelta í bóksölu almennt hafi numið 22 milljörðum dala í fyrra. Þar af var einn milljarður sala á rafbókum. Hann býst við að sala á rafbókum muni aukast á næstunni og fara í sjö milljarða dala árið 2015.

Barnes & Noble
Barnes & Noble
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Bækur með gamla laginu. Þær eru í auknum mæli að færast yfir á stafrænt form.