Lán til sjö manna framkvæmdastjórnar Íslandsbanka eru sögð vera 292 milljóna króna virði í ársreikningi bankans fyrir árið 2009. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis segir að lán til fjögurra af þeim sem sitja í framkvæmdastjórninni í dag nemi 2.571 milljónum króna. Virði lánanna í ársreikningnum er birt með tilliti til þess afsláttar sem bankinn fékk á þeim þegar þau voru „keypt“ út úr þrotabúi Glitnis. Starfsmennirnir fjórir geta því glögglega séð í ársreikningi að bókfært virði útistandandi lána þeirra er einungis um 10% af þeirri upphæð sem þeir fengu upphaflega lánað.

Eru enn framkvæmdastjórar hjá Íslandsbanka

Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er að finna töflu yfir lán til alls sextán framkvæmdastjóra og lykilstarfsmanna Glitnis eins og þau stóðu í maí 2008. Heildarskuld þeirra við bankann á þeim tíma námu 8.437 milljónum króna. Níu þeirra sextán sem tilgreindir eru í töflunni starfa í dag hjá Íslandsbanka, sem var reistur á grunni Glitnis. Samanlögð lán til þeirra námu 4.225 milljónum króna. Fjórir þeirra sitja í framkvæmdastjórn Íslandsbanka samkvæmt skipuriti á heimasíðu hans.

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .