*

laugardagur, 16. október 2021
Innlent 2. júní 2021 19:24

Bókhaldsgögn fundust í skotti á bíl

Margt merkilegt kom fram í aðalmeðferð skaðabótamáls þrotabús Sameinaðs sílikons gegn fyrrverandi endurskoðanda félagsins.

Jóhann Óli Eiðsson
Magnús Garðarsson var alltumlykjandi þegar kom að United Silicon.
Haraldur Guðjónsson

Varðar það sérfræðinga skaðabótaábyrgð að hafa ekki grandskoðað í hvað hlutafé, sem kemur inn í félag í kjölfar hlutafjárhækkunar, er nýtt? Á því byggir þrotabú Sameinaðs sílikons hf. í máli sem það höfðaði gegn Rögnvaldi Dofra Péturssyni, fyrrverandi endurskoðanda félagsins, og EY. Alls krefur þrotabúið stefndu um 673 milljónir króna í málinu en það er ekki hið fyrsta sem hefur ratað fyrir dómstóla. Aðalmeðferð fór fram fyrir tæpri viku og fylgdist blaðamaður Viðskiptablaðsins með.

„Samkvæmt lögunum þá ber sérfræðingi aðeins að staðfesta að greiðsla fyrir hlutaféð hafi farið fram, ekki að staðfesta hvort þeim verði varið skynsamlega. Ætlar félagið til að mynda að bjóða starfsmönnum til tunglsins? Það kemur mér ekkert við, ég þarf bara staðfestingu á að féð hafi borist,“ sagði Rögnvaldur Dofri meðal annars í aðilaskýrslu sinni.

Það telur þrotabúið tæplega fullnægjandi svör og telur að ýmis atvik hefðu átt að hringja viðvörunarbjöllum hjá endurskoðandanum. Þrotabúið benti til að mynda á móti að engir reikningar vegna færslna út úr umræddu félagi hefðu fundist til að byrja með. Þeir komu ekki í ljós fyrr en seint og um síðir þegar faðir Magnúsar Garðarssonar, aðalvítamínsprautu United Silicon, hóf tiltekt í bílskúr hér í borg. Við þá tiltekt hafi fundist heill haugur af bókhaldsgögnum í skottinu á bíl Magnúsar sem staðið hafði óhreyfður um árabil.

„Kunna menn annan betri? Þetta eru allt einhver ljósrit sem enginn veit hvernig urðu til, standast ekki skoðun bókhaldslaganna og menn geta allt eins hafa kokkað þá upp heima hjá sér. Sönnunargildi þeirra er því ekkert,“ sagði Gísli Guðni Hall, lögmaður þrotabúsins í málinu, í málflutningsræðu sinni.

Nánar má lesa um málið og ævintýralegar vendingar því tengdar í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér. Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Þrátt fyrir heimsfaraldurinn var 2020 annað veltuhæsta ár í sögu íslenska kvikmyndaiðnaðarins.
  • Nýleg skýrsla rennir stoðum undir málflutning forstöðumanna ríkisstofnana um að þeir njóti lakari starfskjara en samanburðarhópar.
  • Viss óvissa er uppi um hvaða áhrif það kynni að hafa ef Neytendasamtökin hafa sigur í vaxtamálunum.
  • Greining á eftirspurn eftir auglýstum störfum í faraldrinum.
  • Fjallað er um vaxtaráform Lagardère og breytingar á hluthafahópi félagsins.
  • Rætt er við Hildi Erlu Björvinsdóttur, nýjan framkvæmdastjóra Emmessís.
  • Fjallað eru um Sopra, nýtt innlána- og greiðslukerfi Reiknistofu bankanna.
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs, en Viðskiptaráð Íslands er honum ofarlega í huga.
  • Óðinn skrifar um Lindarhvol ehf. og skýrsludrög setts ríkisendurskoðanda sem enginn fær að sjá.