Jón Guðbjartsson, stjórnarformaður rækjuvinnslunnar Kampa á Ísafirði, sem fór í greiðslustöðvun í síðustu viku, segir bókhald fyrirtækisins hafa „byggst á skáldskap í allt of langan tíma“, í samtali við Morgunblaðið í dag.

Jón segir ársreikningar félagsins hafi ekki gefið rétta mynd af stöðunni. Stjórnanda hjá Kampa sé um að kenna. „Annar verklegra stjórnenda fyrirtækisins gerði skandal sem við vissum ekki um. Ég ætla ekki nánar út í það. Nú er farin af stað vinna við það að bjarga fyrirtækinu,“ hefur Morgunblaðið eftir Jóni.

42 starfa hjá fyrirtækinu. Jón segir viðbrögð kröfuhafa hafa verið jákvæð. Endurskoðendur eru að fara yfir reksturinn og bókhaldið og vonast er eftir niðurstöðu á næstu dögum. „Það hefur eitthvað verið bogið við bókhaldið hjá okkur í áravís,“ segir Jón.

Félagið hefur enn ekki skilað inn ársreikningi vegna ársins 2019. Samkvæmt síðasta samþykkta ársreikningi félagsins fyrir árið 2018 námu tekjur félagsins 2,9 milljörðum króna árið 2018 en 2 milljörðum króna árið 2017. Bókfærður hagnaður nam 86 milljónum árið 2018 en bókfært tap var 95 milljónir króna árið 2017. Í árslok 2018 voru eignir félagsins bókfærðar á 1,43 milljarða króna og eigið fé á 164 milljónir króna.