Seth Klarman, stofnandi og stjórnarformaður vogunarsjóðsins Baupost Group, sem er í hópi vogunarsjóða sem keypt hafa skuldabréf föllnu bankanna frá hruni, er goðsögn á Wall-Street vegna bókar sem hann gaf út árið 1991. Hún heitir Margin of Safety; Risk-Averse Value Strategies Investing for Thoughtful Investors.

Margsinnis hefur verið fjallað um hana í fjölmiðlum. Hún er uppseld hjá útgefanda og illfáanleg í bókabúðum um allan heim. Á hinum ýmsum vefsíðum, meðal annars Amazon og Ebay, hefur hún verið til sölu á 700 til 1.500 dollara, sem nemur um tæplega 90-200 þúsund krónum. Í umfjöllun á vef tímaritsins BusinessWeek á haustmánuðum 2006 kemur fram að bókin hafi gengið kaupum og sölum á allt að 2.500 dollara eða sem nemur 310 þúsund á núverandi gengi. Þá segir í umfjöllun BusinessWeek að hún hafi árum saman verið ófáanleg á bókasöfnum vegna langra biðlista eftir bókinni.

Þá hefur einnig nokkuð verið um að hún hafi verið leigð á háu verði, allt að 75 dollara á viku, eða rúmlega 9.000 krónur. Bókin fjallar meðal annars um hvernig greina á áhættu til þess að skipuleggja fjárfestingar í kreppu. Hún þykir  lipurlega skrifuð og umfjöllunarefnið tímalaust. Einnig er að finna nákvæmar útlistanir á því hvernig fjárfestar eiga að haga fjárfestingum sínum í hinum ýmsu aðstæðum sem kunna að skapast á markaði. Það er ekki síst sú umfjöllun sem þykir góð hjá Karlman, samkvæmt bókadómum. Hann á sjálfur útgáfuréttinn á bókinni en hefur ekki fengist til að endurútgefa hana. Klarman er með BA próf í hagfræði og MBA frá Harvard háskóla og útskrifaðist með hæstu einkunn 1982. Hann þykir afburðasnjall greinandi og eru reglulegar fjárfestagreinar hans, þar sem hann fer yfir sviðið á mörkuðum, mikið lesnar meðal sérfræðinga á Wall-Street. Meðaltalsársávöxtun Baupost hefur verið í kringum 20 prósent allt frá stofnun sjóðsins.