Hugbúnaðarfyrirtækið Bókun sigraði í flokki íslenskra fyrirtækja í frumkvöðlasamkeppni Norðurlanda, Nordic Startup Awards, en verðlaunin voru afhent í Háskólanum í Reykjavík í gær.

Sambærileg verðlaun eru einnig veitt á hinum Norðurlöndunum og koma sigurvegarar hvers lands fyrir sig til álita við val á sprotafyrirtæki ársins við lokaathöfnina sem haldin verður í Helsinki þann 26. maí næstkomandi.

Mörg önnur fyrirtæki tóku þátt í keppninni – svo sem Datamarket, Valka og Modio á Íslandi, Kahoot, Wimp, Templafy o.fl. á Norðurlöndunum.

Fram kemur í tilkynningu að Bókun hóf rekstur árið 2013. Fyrirtækið framleiðir hugbúnað sem gerir aðilum í ferðaþjónustu kleift að tengjast og vinna saman á einfaldan hátt. Sem dæmi geta þeir geta selt vörur hver annars, haldið utan um útistandandi kröfur sín á milli, sameinað eigin vörur við vörur annarra og selt sem þriðju vöruna, allt í rauntíma. Þetta hefur leitt til aukinnar sölu og framleiðni í ferðaþjónustunni. Bókun er í notkun hjá hundruðum fyrirtækja í ferðaþjónustu á Íslandi og tugir þúsunda bókana flæða í gegnum kerfið í hverjum mánuði. Fyrirtækið vinnur nú að útbreiðslu kerfisins á erlendum mörkuðum.

Hjalti Baldursson, stjórnarformaður Bókunar, segir fyrirtækið þakklát fyrir þessa viðurkenningu. Samstaða og samstarf íslenskra ferðaþjónustuaðila um að nota Bókun hafi leitt til þess að þróunin hefur verið hröð og árangurinn sýnilegur. Þessi verðlaun eru mikil hvatning til að gera enn betur.

Nánari upplýsingar um keppnina má nálgast hér: www.nordicstartupawards.com og á Facebook síðu keppninnar.