Parka snjallforritið, sem sérhæfir sig í greiðsluleiðum fyrir bílastæði í Reykjavík og ferðamannastöðum, hefur nú gefið út nýja lausn sem ætlað er að einfalda Íslendingum að skipuleggja sumarfríið.

Íslendingar hafa verið hvattir til að ferðast innanlands í sumar vegna kórónuveirunnar og því er búist við mikilli aðsókn á tjaldsvæði landsins. Enn fremur hefur embætti landlæknis gefið út fyrirmæli um fjöldatakmarkanir fyrir tjaldsvæðin.

Samkvæmt þeim ber að skipta upp hverju tjaldsvæði í 200 manna sóttvarnarými, bera þurfi virðingu fyrir tveggja metra reglunni, að lágmarki þurfi að vera fjórir metrar á milli tjalda og í það minnsta fjögur salerni í hverju rými.

Þjónustan sem Parka býður upp á og unnin er í samstarfi við tjaldsvæðin gerir notendum kleift að bóka stæði fram í tímann fyrir einstaklinga sem og hópa. Sum svæði bjóða upp á þann möguleika að velja sitt eftirlætis stæði. Fjölskyldur og hópar geta þannig pantað svæði saman. Þá verður einnig hægt að nýta 5000 króna ferðaávísun ríkisins í gegnum bókunarkerfi Parka.

„Við erum virkilega spennt fyrir þessari nýjung í appinu. Það hefur verið mikil eftirspurn eftir bókunar- og greiðslukerfi fyrir tjaldsvæðin,“ segir Ívar Freyr Sturluson markaðsfulltrúi Parka.

„Þessi þjónusta auðveldar tjaldsvæðum að virða fjöldatakmarkanirnar án þess að skapa óþægindi fyrir einstaklinga. Það vill enginn lenda í því að keyra á tjaldsvæði sem er fullt. Ferðalangar vilja vera öruggir með náttstað í sumar.“

Með fjóra starfsmenn

Parka snjallforritið er fáanlegt að kostnaðarlausu í App Store og Google Play. Allar frekari upplýsingar er hægt að finna á heimasíðu Parka, Parka.is. Þar verður einnig hægt að panta tjaldsvæði sem og inn á Tjalda.is. Hægt verður að bóka stæði frá og með næstu viku.

Parka Appið er unnið af hugbúnaðarfyrirtækinu Computer Vision ehf. Frá árinu 2016 hefur Computer Vision hannað og smíðað kerfi sem safnar gögnum frá myndavélum sem greina bílnúmer og gert gögnin aðgengilegri til hvers kyns greiningar. Einnig hafa þeir hannað SmartAccess innheimtu- og eftirlitskerfið ásamt Parka appinu. Hjá Computer Vision starfa fjórir starfsmenn.

Skjámynd af Parka tjaldsvæðisappinu
Skjámynd af Parka tjaldsvæðisappinu
© Aðsend mynd (AÐSEND)