*

miðvikudagur, 21. ágúst 2019
Innlent 20. apríl 2019 17:02

Bólan sem sprakk með hvelli

Netbólan á 10. áratugnum hófst um svipað leyti og Viðskiptablaðið hóf göngu sína.

Ástgeir Ólafsson
Netscape sendi frá sér Navigator-vafrann síðla árs 1994.
Aðsend mynd

Óhætt er að segja að fáir ef nokkrir hlutir hafi breytt heiminum jafn mikið frá árdögum Viðskiptablaðsins eins og Internetið hefur gert síðustu 25 ár. Internetið breytti meðal annars hvernig við nálgumst upplýsingar, eigum samskipti við hvert annað, verslum, stundum bankaviðskipti og hlutabréfaviðskipti auk þess sem Internetið ýtti af stað einni stærstu hlutabréfabólu sögunnar, netbólunni (e. Dotcom bubble), sem er umfjöllunarefni þessarar greinar.

Netscape markaði upphafið
Upphaf netbólunnar má að mörgu leyti rekja til nóvembermánaðar árið 1993 þegar Mosaic vefvafrinn var kynntur til sögunnar af háskólanum í Illinois en hann var sá fyrsti sem gerði almenningi kleift að vafra um veraldarvefinn (e. World wide web) þó vissulega hefðu aðrar internetþjónustur komið fram á sjónarsviðið áður. Til að gera langa sögu stutta varð Mosaic-vafrinn að fyrirtækinu Netscape en Marc Andreessen, einn af höfundum Mosaic-vafrans, stofnaði fyrirtækið ásamt Jim Clark sem taldi mikil viðskiptatækifæri felast í vafranum. Netscape sendi svo frá sér Navigator-vafrann síðla árs 1994. Vöxtur Navigator-vafrans var gífurlegur. Í janúar 1995 nam markaðshlutdeild vafrans um 20% en var um 80% í lok sama árs.

Þessi mikli vöxtur varð til þess að Netscape var skráð á markað í ágúst árið 1995 án þess að hafa skilað hagnaði. Skráning Netscape markaði að vissu leyti tímamót. Þrátt fyrir að það teljist varla til mikilla tíðinda í dag að fyrirtæki sé skráð á hlutabréfamarkað án þess að hafa skilað hagnaði var það töluvert meiri nýlunda á þeim tíma. Skráning Netscape á markað var einnig sú fyrsta af mörgum skráningum þar sem hlutabréfaverð fyrirtækja sem enn áttu eftir að skila hagnaði, og jafnvel tekjum, snarhækkaði á skömmum tíma. Við skráninguna nam útboðsgengi Netscape 28 dollurum á hlut en þegar fyrsta degi félagsins á markaði var lokið nam hlutabréfaverð þess 58,25 dollurum á hlut og nam markaðsvirði þess um þremur milljörðum dollara. Fimm mánuðum seinna nam hlutabréfaverð Netscape 174 dollurum á hlut og hafði þá ríflega sexfaldast í verði frá útboðsgengi.

Þó að Netscape hafi á endum orðið undir í baráttu við Microsoft um vinsælasta  vafrann var skráning félagsins á markað fyrirboði um það sem koma skyldi. Í apríl 1996 var Yahoo skráð á markað. Útboðsgengi félagsins nam 13 dollurum á hlut en þegar viðskipti hófust nam verðið 24,5 dollurum og endaði daginn í 33 dollurum á hlut sem þýddi markaðsvirði upp á 848 milljónir dollara. Amazon var svo skráð á markað í maí 1997 með markaðsvirði upp á 438 milljónir dollara. Ári seinna hafði hlutabréfaverð félagsins ríflega fjórfaldast. Tíminn hefur þó leitt í ljós að talsvert meiri innistæða var fyrir markaðsvirði Amazon en Yahoo. Þá eru til mýmörg dæmi um félög sem skráð voru á hlutabréfamarkað og hækkuðu gífurlega við skráninguna eina og sér. Það skipti í raun litlu máli hvað fyrirtækin gerðu, hvort þau skiluðu hagnaði eða jafnvel tekjum.

Greinina má lesa í heild í 25 ára afmælistímariti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift á sérstöku afmælistilboði hér eða pantað tímaritið.