Hagnaður Eignarhaldsfélagsins Bolar ehf. var 0,3 milljónir  króna á fyrri árshelmingi 2007 en á sama tímabili í fyrra var 3,4 milljón króna tap af starfseminni.

Rekstur samstæðu Eignarhaldsfélagsins Bolar ehf. samanstendur af tveim rekstrarfélögum Provinor AS, áður Sæplast Norge AS, og Sæplast Canada Inc. auk móðurfélagsins en eins og fram kom í tilkynningu félagsins 30. mars s.l. þá var Sæplast Ålesund AS selt Promens hf. í upphafi árs.

Rekstur dótturfélaganna gekk vel á tímabilinu, segir í tilkynningu til Kauphallarinnar, og voru rekstrartekjur þeirra ásamt tekjum af starfsemi móðurfélagsins 693,3 milljónir króna og hagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) var 91,5 milljónir króna eða 13,2% og skiluðu bæði dótturfélögin jákvæðri EBITDA.

Sambærileg EBITDA á sama tímabili í fyrra var 79,0 milljónir króna eða 8,9%.

Hagnaður fyrir fjármagnsliði (EBIT) var 51,3 milljónir króna eða 7,4% samanborið við 29,8 milljónir króna eða 3,4% sama tímabil í fyrra.

Hrein fjármagnsgjöld námu 53,7 milljónum króna, tap fyrir skatta var 2,4 milljónir króna og hagnaður tímabilsins eftir skatta 0,3 milljónir króna.

Niðurstöður efnahagsreiknings eru 2.240 milljónir króna þar af er eigið fé 634,6 milljónir króna og er eiginfjárhlutfall 28,4%.

Horfur í rekstri dótturfélaganna tveggja á síðari árshelmingi eru ágætar, segir í tilkynningu.