Eiga bankar, sem neyðast langtímum saman til að reiða sig á markaðsfjármögnun á kjörum upp á 150 til 200 punkta, langa lífdag fyrir höndum? Richard Thomas, sérfræðingur hjá Merrill Lynch, spyr þessarar áleitnu spurningar í nýlegri greiningu á stöðu íslensku bankanna. Hann kemst að þeirri niðurstöðu að bankar í slíkum vanda séu komnir með bakið upp að veggnum.

Bent er á þau almæltu tíðindi í skýrslunni að skuldatryggingaálag íslensku bankanna sé í hæstu hæðum um þessar mundir. Þrátt fyrir að sú skoðun íslenskra sérfræðinga hafi komið fram að lítið sé að marka álagið, sökum þess hversu ógagnsær og óskilvirkur markaðurinn með slíka fjármálagjörninga er, virðast kollegar þeirra hjá Merrill Lynch taka á honum mark.

Fram kemur í skýrslunni að þeir líti svo á að þegar álagið sé komið yfir þúsund punkta endurspegli það væntingar um gjaldþrot. Skuldatryggingaálagið á Kaupþingi og Glitni er, sem kunnugt er yfir þúsund punktum og er það í annað skipti sem það hefur gerst á þessu ári.

Þrátt fyrir að það sé einnig hátt hjá Landsbankanum hefur það verið töluvert lægra en hjá hinum bönkunum tveimur.

______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .