Fimm ára verðbólguálag á skuldabréfamarkaði var um eða rétt tæp 5,2% alla síðustu viku og hefur ekki verið jafn hátt síðan í byrjun júlí síðastliðins, eftir að hafa byrjað vikuna á undan hálfu prósentustigi neðar í tæpum 4,7%.

10 ára álagið endaði í 4,51% við lokun markaða fyrir helgi og hafði þá lækkað um 0,15% frá hæsta dagslokagengi vikunnar sem var 4,66% á þriðjudag, en hækkað um 0,15% frá þarsíðustu vikulokum.

Frá áramótum hefur 5 ára álagið nú hækkað um 0,54% og 10 ára álagið um 0,11% en bæði héldust við eða undir ársbyrjunargildinu fyrstu rúmar þrjár vikur ársins. Fram að áramótum höfðu bæði 5 og 10 ára álagið sveiflast í kring um nokkuð óbreytt gildi frá októberlokum, þegar bæði tóku 0,4% stökk á tveimur dögum.

Janúarmælingin yfir væntingum en árstíðabundin

Tiltrú markaðsaðila á að verðbólga verði kveðin niður á næstunni virðist þannig hafa veikst ansi hratt nýverið. Mesta stökkið á báða mælikvarða kom síðastliðinn mánudag, en þá var kynnt verðlagsmæling janúarmánaðar sem sýndi 9,9% verðbólgu milli ára.

Þótt mælingin hafi verið nokkuð yfir væntingum greiningaraðila má rekja mjög stóran hluta hennar til árstíðabundinna þátta á borð við árlegar gjaldskrárhækkanir hins opinbera og erlendra matvælabirgja. Álagið hafði auk þess þegar hækkað þónokkuð frá áramótum þegar verðlagsmælingin var birt.

Hafa skal í huga að ýmsir þættir á borð við almennt óvissuálag og sveiflur í framboði verðtryggðra og óverðtryggðra ríkisskuldabréfa geta haft áhrif á álagið án þess að verðbólguvæntingar einar liggi þar að baki. Óháð því er hins vegar hætt við að peningastefnunefnd sjái sig tilneydda til að senda skýr skilaboð í næstu viku til að viðhalda trúverðugleika og tryggja kjölfestu verðbólguvæntinga.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.