Netarall Hafrannsóknastofnunar er nú haldið í 25. sinn með þátttöku fimm báta sem eru Magnús SH í Breiðafirði, Saxhamar SH í Faxaflóa, Friðrik Sigurðsson ÁR frá Reykjanesi að Skeiðarárdjúpi, Sigurður Ólafsson SF frá Meðallandsbugt að Hvítingum og Geir ÞH fyrir norðurlandi. Sigurður Ólafsson var í ágætri veiði fyrir sunnan land en stöðug ótíð hefur verið að gera mönnum lífið leitt.

Sigurður Ólafsson SF byrjaði á netarallinu snemma í síðustu viku og var búinn að landa þrisvar þegar tal náðist af Ólafi Birni Þorbjörnssyni útgerðarmanni. Ólafur Björn var lengst af sínum starfsferli til sjós en stýrir nú útgerðinni úr landi og lætur syni sínum Sigurði um að stýra Sigurði Ólafssyni.

„Þetta hefur gengið mjög vel. Fiskurinn er vænn og fallegur. Við byrjuðum austan við Hrollaugseyjar og fengum þar 16 tonn og 17 tonn í fjórar trossur hvorn daginn,“ segir Ólafur Björn.

Allt í salt

Sigurður Ólafsson var á þorsknetum í vetum og búinn með þorskkvótann. Það kemur sér því vel að taka þátt í netarallinu. Aflinn fer á fiskmarkaðinn og útgerðin heldur eftir 80% af söluandvirðinu til að gera upp við sína menn og standa straum af öðrum kostnaði. Sigurður Ólafsson tók fyrst þátt í netaralli 1996 þegar það fór fram í fyrsta sinn.

Talsverð eftirsókn er meðal útgerða að taka þátt í rallinu og senda þær inn tilboð til Hafrannsóknastofnunar sem velur í framhaldinu þátttakendur.

Ólafur Björn segir fiskverð hafa verið mjög gott í allan vetur. Meðalverð á óslægðum þorski hafi yfirleitt verið yfir 300 krónur á kílóið. Fiskurinn fer allur í salt og það er eftirspurn eftir saltfiski víða. Þennan fisk þarf því ekki að flytja út með hraði.

„Það hefur verið flótti undan veðri nánast í allan vetur en mjög gott fiskirí þegar menn komast á sjó,“ segir Ólafur Björn.

Rall í fimmta sinn

Sigurður Ragnar Kristinsson, skipstjóri á Geir ÞH frá Þórshöfn, var að undirbúa annan túrinn í netaralli. Þetta er í fimmta sinn sem báturinn tekur þátt í rallinu undir þessu nafni. 14 tonn fengust í fyrstu lögninni. Möskvatærðin er 6-9 tommur. Ekki hefur fengist mikið af stórum fisk, að jafnaði hefur þetta verið 5-7 kílóa þungur fiskur. Fyrir rallið voru þeir með 9 tommu möskvastærð og meðalþyngdin var þá um 9 kíló.

Þeir drógu þrjár trossur tandurhreinar en eins og tíðarfarið er og hefur verið hafa menn þurft að sækja sjóinn hvern einasta dag sem gefst. Sigurður Ragnar segir betra að eiga við þetta fyrir sunnan í norðanáttunum en flest svæðin fyrir norðan eru á grunnsævi og opin fyrir veðri og vindum.

Sigurður Ragnar byrjaði til sjós 1982 og kveðst ekki muna eftir veðrum eins og á þessum erfiða betri.

Lagt á níu stöðum

„Ef við værum með netin á dýpra vatni, kannski 35-40 föðmum, værum við að draga þau, en á mörgum stöðum er þetta á fjögurra faðma dýpi og þangað förum við ekki í svona norðanstrekkingi og kviku. Það er stormur annan hvorn dag og svo lægir á milli. Við þurfum að keyra á milli staða og leggja netin grunnt og það er bara hreinlega ekki hægt að draga netin daginn eftir,“ segir Sigurður Ragnar.

Í rallinu leggur Geir ÞH net á níu stöðum á Norðurlandi; þremur í Húnaflóa, í Steingrímsfirði, Miðfirði, við  Skagaströnd, í Skagafirði, Eyjafirði, austur af Grímsey, Skjálfanda, í Öxarfirði og Þistilfirði. Þetta er því stórt svæði að fara um og endalaus norðanþræsingur er ekki beinlínis að hjálpa upp á sakirnar.

Sigurður Ólafsson skipstjóri á samnefndum bát var í sinni þriðju löndun í rallinu. Afraksturinn var um 17 tonn.

„Þetta voru fjórar trossur. Þetta hefur verið viðbjóðslegur vetur veðurfarslega séð. Við höfum verið að draga þrisvar til fjórum sinnum og svo flúið í land og verið í landi í þrjá fjóra daga út af brælum. En það fiskast og þetta er að jafnaði 8-10 kílóa fiskur. Það er vanalega ekki nema eitt kar af smærri fiski, undir 5 kílóum, eftir hvern túr. Allur annar fiskur er stór,“ segir Sigurður.