Aðgerðir Seðlabankans í gærmorgun og síðustu viku eiga sér engin fordæmi í íslenskri hagsögu. Stýrivextir hafa verið lækkaðir um 1% á viku og standa nú í 1,75%, og höfðu þó aldrei verið lægri fyrir, bindiskyldan lækkuð í 1%, og svokallaður sveiflujöfnunarauki – sem stóð í 2% – hefur verið afnuminn með öllu.

Í ofanálag gaf Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri svo skýr skilaboð um að bankinn ætti nóg inni, meðal annars með orðunum „Við erum rétt að byrja“. Sérfræðingar telja þó veigamestu opinberu aðgerðirnar enn eftir að skýrast: aðgerðir ríkisstjórnarinnar.

Erna Björg Sverrisdóttir, aðalhagfræðingur Arion banka, segir afar erfitt að greina efnahagshorfur næstu missera með nokkurri vissu.

„Færa má rök fyrir því að íslenska hagkerfið sé sveigjanlegra og betur í stakk búið en mörg ef ekki flest önnur til að takast á við skell af þessu tagi. Á móti erum við hins vegar afar háð ferðaþjónustunni samanborið við önnur þróuð ríki.“ Ísland sé því í senn viðkvæmara fyrir málinu og betur búið til að takast á við það.

„Hvað varðar Seðlabankann held ég að boltinn sé alfarið hjá ríkinu núna. Flestir eru að bíða eftir því að aðgerðir þess verði kynntar. Ég hugsa að aðgerðir Seðlabankans í framhaldinu taki jafnvel mið af þeim. Þetta þarf að einhverju leyti að fylgjast að. Mín skoðun er sú að ríkið sé mun betur í stakk búið til að styðja atvinnulífið í gegnum þetta en Seðlabankinn, eins mikið og hann hefur gert.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .