Ljóst er að bólusetning við kórónuveirufaraldrinum getur haft veruleg áhrif á framþróun hagvaxtar, bæði hérlendis sem og erlendis. Erna Björg Sverrisdóttir, aðalhagfræðingur Arion banka, segir að fréttir þess efnis að bóluefni Pfizer og BioNTech virki á 90% notenda auki líkurnar á kröftugri viðspyrnu í hagkerfinu, en að fram undan sé þungur vetur.

Segir hún að ekki sé ástæða, að svo stöddu, til að breyta núverandi hagvaxtarspá bankans fyrir næsta ár. Enn sé margt óljóst. „Við verðum kannski fljótari að ná viðspyrnu en maður sér ekki alveg fyrir sér að bóluefnið hafi áhrif fyrr en líða tekur vel inn á næsta ár og þá sérstaklega 2022,“ segir Erna Björg.

Erna bendir á að það eigi eftir að koma í ljós hvort virknin verði jafn mikil og rannsóknir benda til. Enn fremur á eftir að skýrast hvernig framleiðslan gengur, hvernig dreifing á bóluefninu muni ganga sem og hvort almenningur verði nægjanlega viljugur til þess að láta bólusetja sig. Einnig að flestar hagvaxtarspár bankanna, líkt og sú sem Arion banki birti fyrir um tveimur vikum, hafi gert ráð fyrir að bólusetning hefjist fyrir eða um mitt næsta ár. Fréttirnar séu því ekki kúvending að því leytinu til.

Skýr svör gætu leitt til harðari aðgerða og meiri styrkja

„Verði bóluefnið samþykkt og fari í dreifingu tel ég líklegt að til skemmri tíma verði fórnarkostnaður þess að slaka á sóttvarnatakmörkunum meiri. Við myndum því búa við harðari takmarkanir en ella, bæði innanlands og á landamærunum. Á móti kemur að ef við höfum einhvern endapunkt tel ég að yfirvöld verði viljugri til þess að veita fjárstuðning,“ segir Erna. Í því samhengi bendir hún á að skyldi faraldurinn dragast á langinn verði efnahagsáhrifin sífellt alvarlegri og hröð viðspyrna ólíklegri.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .