*

fimmtudagur, 6. maí 2021
Erlent 16. nóvember 2020 12:41

Bóluefni Moderna sýnir 95% virkni

Hlutabréf Moderna hafa hækkað um sautján prósent eftir jákvæðar bráðabirgðaniðurstöður um virkni á bóluefni fyrirtækisins.

Ritstjórn
epa

Mögulegt bóluefni bandaríska líftæknifyrirtækisins Moderna sýnir fram á nær 95% virkni, samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum. Um 30 þúsund Banaríkjamenn tóku þátt í rannsókninni sem fengu tvo skammta af bóluefninu með fjögurra vikna millibili.

Sjá einnig: Bóluefni Pfizer skili 90% árangri

Niðurstöður rannsóknarinnar koma einungis viku eftir að Pfizer og BioNTech sögðu að bóluefni félaganna hafi rétt yfir 90% virkni sem var talsvert betra árangur en áður hafði verið gert ráð fyrir. Forstjóri Moderna sagði fregnirnar þær fyrstu sem sýna að bóluefni félagsins geti spornað gegn Covid-19 sjúkdómnum. Á vef Financial Times er sagt frá því að bóluefnið geti geymst í allt að sex mánuði.

Sjá einnig: Aukin bjartsýni og hlutabréf rjúka upp

Af þeim 30 þúsund sem tóku þátt í rannsókn Moderna voru 95 sem greindust með Covid-19. Fimm af þeim höfðu fengið bóluefni fyrirtækisins en hinir 90 ekki fengið neitt. Af þeim 95 sem fengu Covid-19 urðu ellefu alvarlega veikir en enginn sem hafði fengið bóluefnið. 

Fyrirtækið hyggst biðja um samþykki bóluefnisins á næstu vikum. Ef fer sem horfir verður það önnur beiðnin sem matvæla- og lyfjaeftirliti Bandaríkjanna berst vegna bóluefnis gegn kórónuveirunni.

Stikkorð: Moderna Bóluefni