Bóluefni við kórónuveirunni sem veldur Covid-19 gæti komið á markað snemma á næsta ári ef allt gengur að óskum, og snöggskimunarpróf gætu gefið niðurstöðu á fimm mínútum. Heilbrigðis- og framleiðslurisinn Johnson & Johnson tilkynnti um bóluefnið í dag, og Abbott Laboratories um prófin. Financial times fjallar um málið .

Búist er við að prufanir bóluefnisins á mannfólki geti hafist í september. J&J vinnur að þróun þess í samvinnu við bandarísk yfirvöld, en milljarði Bandaríkjadala hefur þegar verið fjárfest í þróun þess.

Gangi prufanirnar vel gæti bóluefnið komið á markað strax á næsta ári með sérstakri neyðarleyfisveitingu lyfjaeftirlitsins þar í landi. Hlutabréf í félaginu hækkuðu um 8% í kjölfar tilkynningarinnar.

Fyrirtækið verður þó ekki það fyrsta til að hefja prufanir á bóluefni á mannfólki. Bandaríska líftæknifyrirtækið Moderna hóf prufanir í mars, eftir að hafa aðeins verið 42 daga að þróa sitt bóluefni.