Bóluefnið við COVID-19, sem Oxford háskóli þróar í samstarfi við sænsk-breska fyrirtækið AstraZeneca, framkallar ríka ónæmissvörun meðal eldri einstaklinga. Þetta kemur fram í umfjöllun Financial Times .

Niðurstöður nýjustu rannsókna á bóluefninu benda til þess að bóluefnið leiði til mótefnamyndunar og virkjunar T-fruma meðal einstaklinga sem eru 55 ára og eldri. Niðurstöðurnar vekja vonir um að efnið muni vernda eldra fólk frá alvarlegum veikindum eða dauða vegna kórónuveirunnar, en aldur er meðal helstu áhættuþátta alvarlegra veikinda af völdum veirunnar. Vegna þess hve ónæmiskerfi fólks veikist með aldrinum, hafa áhyggjur verið viðraðar af því að sá aldurshópur sem mest þurfi á vörn að halda, veiti minnstu svörun við bólusetningu.

Fyrri niðurstöður rannsókna á bóluefninu, sem tóku mið af heilbrigðum einstaklingum á aldrinum 18 til 55 ára, leiddu í ljós að bóluefnið virkjaði tvíþætt ónæmisviðbrögð, annars vegar myndun mótefnis og hins vegar myndun T-fruma, í að minnsta kosti 56 daga.

Þótt nýjustu niðurstöður rannsókna á bóluefninu veiti vonir um gagnsemi þess fyrir eldri aldurshópa, eiga rannsóknir á síðari stigum þróunarferlisins eftir að leiða í ljós hvort bóluefnið í raun veiti eldri aldurshópum vörn gegn sjúkdómnum.

Samkvæmt heimildarmanni Financial Times, standa vonir til að hægt verði að hefja bólusetningu á framlínustarfsfólki baráttunnar við COVID-19 strax í janúar á næsta ári. Patrick Vallance, aðal vísindaráðgjafi bresku ríkisstjórnarinnar, er þó ekki jafn bjartsýnn og bendir á að enn sé mikil óvissa um tímalínu þróunar bóluefnisins sem og samþykkisferlis.

Bóluefni Oxford háskóla og AstraZeneca er talið vera í fararbroddi þeirra sem í þróun eru gegn COVID-19 sjúkdómnum. Ísland hefur þegar tryggt samkomulag um kaup á bóluefninu fyrir landsmenn á grundvelli Evrópusamstarfsins.