Embætti landlæknis á Englandi (Public Health England) metur sem svo að fram til 11. júlí síðastliðins hafi bólusetningar komið í veg fyrir 52.600 innlagnir á spítala á meðal einstaklinga sem eru 65 ára eða eldri, þar af um 8.800 innlagnir einstaklinga á aldursbilinu 65 til 74 ára, 20.300 innlagnir 75 til 84 ára og 23.500 innlagnir 85 ára og eldri.

Þetta kemur fram í vöktunarskýrslu embættis landlæknis á Englandi vegna COVID-19 bólusetningar sem kom út í dag. Skýrslan hefur verið gefin út vikulega en mun nú framvegis verða gefin út aðra hverja viku.

Í skýrslunni kemur fram að líklega sé virknin vanmetin vegna þess að óbein áhrif bólusetningar séu ekki tekin með í greininguna og að jafnframt sé gögnum að fjölga sem sýni að bóluefni komi í veg fyrir sýkingar og smit.

Fyrri skammtur hefur töluverð áhrif

Fjöldi sjúkrahúsinnlagna sem bólusetning kemur í veg fyrir er metinn með því að bera saman gögn um virkni bóluefna gagnvart innlögnum, hlutfall bólusettra og fjölda rauninnlagna og með líkani sem tekur tillit til fjölda breyta.

Grafið sem fylgir fréttinni er tekið upp úr umræddri skýrslu en hefur verið íslenskað. Glögglega má sjá að eftir því sem hlutfall bólusettra eykst, jafnvel eftir fyrri skammtinn, fer að draga úr innlögnum í samanburði við væntan fjölda innlagna.

Allt að 98% vörn gegn innlögn

Í skýrslunni kemur jafn framt fram að rannsóknir þar í landi um virkni bóluefna almennt sýni að einn skammtur af Pfizer eða AstraZeneca veiti 32-38% vörn gegn sjúkdómseinkennum vegna smits af Delta afbrigði veirunnar en tveir skammtar 78-80% vörn. Hér er rétt að taka fram að greining þessi beinist ekki að sérstökum aldurshóp.

Virkni bóluefna gegn sjúkdómseinkennum England
Virkni bóluefna gegn sjúkdómseinkennum England

Þá kemur fram að rannsóknin bendi til þess að bóluefnin veiti betri vörn gegn sjúkrahúsinnlögn vegna smits af Delta afbrigði veirunnar en Alfa afbrigði hennar; 69-88% gegn Delta eftir einn skammt, samanborið við 64-87% gegn Alfa og 91-98% vörn gegn Delta eftir tvo skammta, samanborið við 80-97% gegn Alfa.

Virkni bóluefna gegn innlögnum í Englandi
Virkni bóluefna gegn innlögnum í Englandi