*

fimmtudagur, 5. ágúst 2021
Innlent 14. nóvember 2020 19:01

Bóluefnin koma til bjargar

Af um 170 bóluefnum við COVID-19 sem eru í þróun eru 47 í klínískum rannsóknum. Þar af eru um 10 í lokafasa rannsókna.

Höskuldur Marselíusarson
Væntingar glæddust við fréttir um góðan árangur af nýju bóluefni bandaríska lyfjaframleiðans Pfizer sem unnið er í samstarfi við þýska líftæknifyrirtækið BioNTech og kínverska fyrirtækið Fosun Pharma.
epa

Væntingar um að hagvöxtur í heiminum nái sér á strik á næsta ári byggja á því að bóluefni fyrir kórónuveirunni sem veldur COVID-19 sjúkdómnum verði tilbúið og geti komist í víðtæka dreifingu á seinni hluta næsta árs. Þannig býst OECD við því að hagvöxtur í heiminum verði 5% á næsta ári, eftir 4,5% samdrátt á þessu ári, en ef hægt væri að koma bóluefnum út til almennings í heiminum hraðar gæti hagvöxtur í heiminum orðið 7% á árinu.

Allt veltur þetta þó á því hversu hratt það takist að búa til bóluefni, hversu virkt það verði, og hversu fljótt verði hægt að koma því, eða þeim, í víðtæka dreifingu. Jafnvel getur það skipt töluvert miklu hvaða fyrirtæki verða fyrst til að koma sínum bóluefnum í framleiðslu, upp á það hvaða lönd njóta þess fyrst að fá bóluefni í teljanlegu magni afhent til sín. Þá hefur verið bent á að jafnvel þó að bóluefni komi til, geti samfélög heims þurft að lifa með faraldrinum um lengri tíma.

Hraðasta þróunin hingað til fjögur ár

Bjartsýni jókst mikið á mörkuðum á Íslandi og víða um heim þegar fréttir bárust af því í vikunni að bráðabirgðatilraunir á bóluefni sem Pfizer, BioNTech og Fosun Pharma þróa saman, hafi sýnt yfir 90% virkni bóluefnisins sem er langt umfram væntingar um 60 til 70% virkni, og 50% lágmarkið sem heilbrigðisyfirvöld hafa sett. Þróun bóluefnis fyrirtækjanna byggir á nýstárlegri tækni, sem ekki hefur áður verið notuð til að koma bóluefni á markað, en á að geta skilað bóluefnum hraðar en áður hefur þekkst. Hingað til hefur hraðasta þróun bóluefnis verið fjögur ár.

Alls eru nú um 10 væntanleg bóluefni í þriðja og síðasta fasa klínískra rannsókna, það er tilraunum á fólki, á bóluefni við sjúkdómnum, en 47 af um 170 bóluefnum sem eru í þróun eru komnar í slíkar rannsóknir, samkvæmt Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni. Mismunandi aðferðir eru nýttar í bóluefnunum til að vekja ónæmisviðbrögð, en þær byggja í grunninn á því að koma hluta af genum eða próteinum kórónuveirunnar, eða veikluðum kórónuveirum, í okkar eigin frumur sem aftur geti þá myndað ónæmisviðbrögð.

Jafnframt eru í þróun mismunandi aðferðir til að koma bóluefnunum til skila í líkamann. Flest gera þau ráð fyrir að sprauta þurfi tvisvar til að þau hafi tilskilin áhrif, en einnig þróar bandaríska stórfyrirtækið Johnson & Johnson bóluefni sem hægt er að bólusetja einu sinni fyrir. Þess utan eru í þróunarferli bóluefni sem hægt er að taka í töfluformi, eða nota plástra, til að koma inn í líkamann.

Varað við of mikilli bjartsýni

Meðal dæma um nýstárlegri aðferðir við bólusetningar, þá byrjaði indverski bóluefnaframleiðandinn Zydus Cadila í ágúst á fasa tvö í klínískum rannsóknum á bóluefni sem hægt er að koma til skila með plástri, og ætlar fyrirtækið að byrja þriðja fasann í desember. Kanadíska fyrirtækið Symvivo byrjaði svo 2. nóvember á fyrsta fasa klínískra tilrauna á bóluefni, sem sett var inn í bakteríu sem á að vera hægt að gleypa í pilluformi.

Þrátt fyrir væntingar um að á næstu mánuðum takist framleiðendum að komast í gegnum allt rannsóknarferlið sem þarf til að koma vel virku og hættulitlu bóluefni við COVID-19 í notkun, þá vara vísindamenn við of mikilli bjartsýni. Þannig geti áhrifa veirufaraldursins gætt áfram í samfélögum, og þar með talið hagkerfinu, ef ekki tekst að framleiða og dreifa bóluefninu nægilega hratt til almennings. Jafnframt eru til staðar áhyggjur af því að virkni bóluefnanna verði ekki nægilega langvarandi til að útrýma veirunni algjörlega, svo mögulega þurfi reglulega bólusetningu, líkt og með flensuna.

Einnig hafa komið fram áhyggjur af því að fólk forðist að nota bóluefnið, ef miklar aukaverkanir fylgdu bólusetningu, en það var ein sviðsmyndin sem Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, velti upp á opnum fundi með velferðarnefnd Alþingis í síðustu viku. Þar sagði hann jafnframt að í undirbúningi væri gerð forgangslista þeirra sem fyrstir fengju bóluefnið þegar það verður tilbúið og komið til landsins.

Sumir vísindamenn segja því að fyrst um sinn þurfi að takmarka væntingarnar við það, að með því að bólusetja heilbrigðis- og annað framlínustarfsfólk, auk aldraðra, geti verið hægt koma böndum á faraldurinn með ýmiss konar takmörkunum eins og þekkst hafa síðasta árið. Takmarkanirnar gætu jafnvel verið í gildi næstu árin, en mögulega í minna mæli.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.