Úr viðtali við Steingrím Birgisson, forstjóra Bílaleigu Akureyrar, sem birtist í Viðskiptablaðinu 17. mars:

Nú er mikið talað um bólumyndun í þessum ferðamannabransa. Er hætta á bólumyndun í bílaleigugeiranum? Hvernig sérðu fyrir þér að bransinn muni þróast næstu árin?

„Sú bólumyndun er þegar komin, klárlega, og varð fyrst í formi druslubílaleigna sem voru kallaðar, stuttu eftir hrun, sem er heldur að draga úr sem betur fer. En eins og ég segi eru 150 bílaleigur á Íslandi í dag. Það er heimsmet miðað við höfðatölu – við eigum svo sem mörg slík heimsmet. En ég held því miður að það sem hefur verið að gerast í ferðaþjónustunni, eins og svo oft áður hérna á Íslandi, sé að það er einhver grein sem gengur vel og þá rjúka allir þangað á kostnað gæða og afkomu.

Ferðaþjónustan er, eins og við vitum, viðkvæm. Hlutirnir geta verið fljótir að breytast. Það sem gengur vel í dag getur verið erfitt á morgun. Ég held að menn þurfi fyrst og fremst að stíga varlega til jarðar og hugsa hlutina til enda. Við höfum séð alltof mörg dæmi um það í kringum bílaleiguhlutann í ferðaþjónustunni, að menn fara af stað með fyrirtæki og sjá bara tekjuhliðina en gleyma ansi mörgum kostnaðarþáttum.

Þú getur rekið bílaleigu þokkalega í eitt, tvö ár, en um leið og þú þarft síðan að fara að endurfjárfesta eða viðhalda flotanum þá er kostnaðurinn fljótur að koma inn. Þetta er mjög vinnuaflsfrek grein, launakostnaður er hár og hefur hækkað mikið síðustu tvö ár. Þannig að rekstrarumhverfið í bílaleigugreininni er erfitt í dag, fullyrði ég. Það er bara verkefni fyrir okkur að takast á við.“

Ítarlegt viðtal við Steingrím er í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .