Kanadíski flugvélaframleiðandinn Bombardier tilkynnti í dag um áætlanir um að segja upp um 7.000 starfsmönnum á næstu tveimur árum. Heildarfjöldi starfsmanna félagsins er, fyrir uppsagnir, um 74.000.

Félagið birti ársreikning í dag, en félagið hefur átt í erfileikum undanfarið. Sala á CSeries flugvélum fyrirtækisins var undir áætlunum. Tekjur lækkuðu um 15,8% en félagið mun formlega kynna niðurstöður ársreiknings fyrir opnun markaða í Montreal í dag.

Hlutabréf í félaginu hafa lækkað um 64,43% á síðastliðnu ári. Fjárfestar virðast þó hafa tekið vel í tilkynningu félagsins, en hlutabréfin hafa hækkað um 11,11% það sem af er degi.