Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði í dag að Landsbanka Íslands hf., KB banka og Glitni væri skylt að afhenda skattstjórum eða umboðsmönnum þeirra sundurliðaðar upplýsingar um öll viðskipti með hlutabréf og aðila að þeim viðskiptum á árinu 2003, sem stefnandi hafði umsjá með, en þess hafði ríkisskattstjóri krafist en bankarnir hafnað.

Bankarnir höfðu hafnað því að afhenda þessar upplýsingar sem ríkisskattstjóri falaðist eftir. Í dóminum er segir að fallast beri á það að frávikum frá þagnarskyldu bankanna á að beita varlega og jafnframt að skýra þau þeim í hag sem upplýsingaskyldan hvílir á.

"Það breytir þó ekki því að samkvæmt lagagreininni víkur þagnarskyldan þegar skylt er að veita upplýsingar samkvæmt lögum," segir í dómsniðurstöðu.

Bönkunum er skylt samkvæmt bréfi ríkisskattstjóra, dags. 25. maí 2004, að afhenda skattstjórum eða umboðsmönnum þeirra sundurliðaðar upplýsingar um öll viðskipti með hlutabréf og aðila að þeim viðskiptum á árinu 2003, sem bankarnir hafði umsjá með, í samræmi við og í því formi sem stefndi hefur ákveðið samkvæmt eyðublaði RSK 2.08, samkvæmt auglýsingu stefnda nr. 1/2004 sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 7. janúar 2004.