*

fimmtudagur, 2. desember 2021
Erlent 2. apríl 2012 20:19

Bono og Edge fjárfesta í Dropbox

Netskjalageymslan Dropbox lauk risastórri hlutafjáraukningu í október í fyrra. Heimsþekktir fjárfestar eru komnir í hluthafahópinn.

Ritstjórn

Írsku rokkararnir Bono og The Edge úr U2 eru á meðal nýrra hluthafa í bandarísku netskjalageymslunni Dropbox. Fyrirtækið fjármagnaði sig með sölu hlutafjár í október í fyrra upp á 250 milljónir dala, jafnvirði rúmra 30 milljarða íslenskra króna.  

Í netmiðlinum Venturebeat, sem fjallar um ýmsa kima bandarísks frumkvöðlageira, segir að Bono hafa í gegnum tíðina fjárfest í net- og tæknifyrirtækjum í gegnum fjárfestingarsjóðinn Elevation Partners. Þetta mun hins vegar vera fyrsta skiptið sem bæði Bono og The Edge fjárfesta í eigin nafni. Ekki hefur verið gefið upp hversu háar fjárhæðir félagarnir lögðu í fyrirtækið.

Á meðal annarra fjárfesta í Dropbox eru þekkt nöfn í Kísildalnum vestra. Þar á meðal eru Sequoia Capital, sem er á meðal frumfjárfesta í fyrirtækinu, Accel Partners og Valiant Capital Partners ásamt því sem bandaríski fjárfestingarbankinn Goldman Sachs á hag felast í fjárfestingu í fyrirtækinu. 

Dropbox er afsprengi þeirra Drew Houston og Arash Ferdowsi og varð að veruleika í klakhúsi Y Combinator árið 2007. Þeir voru þá rétt rúmlega tvítugir og námsmenn við MIT-háskóla í Bandaríkjunum. 

Þeir félagar birtu fyrstir fréttina af kaupum Bono of The Edge á hlutafé í Dropbox og sendu þá mynd sem hér birtist bæði á Twitter-og fésbókarsíðum Dropbox.

Tveir stjórnendur Dropbox ásamt The Edge, Ferdowsi, Bono og Drew Houston.

Stikkorð: The Edge Bono Dropbox Drew Houston U2