*

þriðjudagur, 25. júní 2019
Innlent 23. september 2018 12:01

Bónus að verða ferðaþjónusturisi?

Rekstur margra veitingastaða hefur þyngst þar sem ferðamenn versla í auknum mæli í matvöruverslunum.

Ingvar Haraldsson
Gígja Einarsdóttir

„Það er samdráttur mjög víða, út af verðinu í erlendri mynt. Ferðamennirnir koma þó en þeir eyða minna en þeir hafa gert áður,“ segir Bjarnheiður Hallsdóttir formaður Samtaka ferðaþjónustunnar.

„Það er talið að Bónus sé að verða stórt ferðaþjónustufyrirtæki. Ferðamenn eru að spara við sig í þjónustu og kaupa matinn í staðinn í matvöruverslunum,“ segir Bjarnheiður.

Að undanförnu hafa borist fregnir af rekstrarerfiðleikum jafnvel rótgróinna veitingastaða í Reykjavík. Holtinu, Argentínu, Nora Magasín og Jamie Oliver‘s Italian hefur ýmist verið lokað eða nýir eigendur tekið við rekstrinum að undanförnu svo nokkur dæmi séu nefnd.

„Þessi veitingahús sem mest hafa gert út á erlenda ferðamenn hafa fengið að finna fyrir þessum breytingum,“ segir Bjarnheiður.

Í nýlegri greiningu frá Samtökum ferðaþjónustunnar kom fram að í fyrra hefðu um 34% af tekjum veitingahúsa verið tilkomin vegna erlendra ferðamenn en hlutfallið hafi verið 19% árið 2009.

Miða verð við sína heimamynt

„Það er mjög líklegt að það verði einhvers konar samþjöppun í ferðaþjónustunni,“ segir Ásgeir Jónsson, forseti Hagfræðideildar Háskóla Íslands. Þó að ferðamennirnir haldi áfram að koma til landsins halda þeir ekki endilega áfram að eyða jafn miklu. Það er eins og ferðamenn setji sér viðmið um neyslu í eigin mynt. Í hruninu, þegar gengið féll um 50%, fóru þeir miklu meira út að borða og keyptu meira. Þannig eyddu þeir oft sömu fjárhæðinni í heimamynt sem kom út eins og 50% aukning í neyslu á Íslandi. Þannig að það varð töluverður vöxtur í ferðaþjónustunni þó að ferðamönnum fjölgaði ekki. Að sama skapi þegar gengið hækkar þá versla þeir í Bónus í stað þess að fara út að borða og kaupa minna af skoðunarferðum,“ segir Ásgeir.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is