Matvöruverslunin Bónus hefur tekið þá ákvörðun að hætta sölu á plastburðarpokum í verslunum sínum en umhverfissjónarmið réðu því að sölu þeirra verður hætt. Frá þessu er greint á Facebook síðu fyrirtækisins. Í færslunni segir að þessi ákvörðun fyrirtækisins muni hafa í för með sér minna plast og minni mengun.

Í stað plastpokanna mun Bónus bjóða upp á lífniðurbrjótanlega burðarpoka en jafnframt mun verslunin bjóða viðskiptavinum sínum fjölnota burðarpoka þeim að kostnaðarlausu en um 100.000 burðarpokar eru í boði.

Á heimasíðu fyrirtækisins segir að verslunin hafi í fjölmörg ár unnið að því að draga úr plastnotkun og hafa fjölnota burðarpokar verslunarinnar notið mikilla vinsælda undanfarin ár.

Bónus rekur um 20 matvöruverslanir á höfuðborgarsvæðinu og um 12 á landsbyggðinni.