Bónus lækkaði í dag verð á 600 vörutegundum. Það eru vörur sem Bónus flytur inn beint frá erlendum birgjum. Á vef Samtaka atvinnulífsins segir að Bónus muni nýta það svigrúm sem styrking íslensku krónunnar undanfarið gefur til verðlækkunar og treysti á að krónan muni ekki veikjast á næstunni. Verðlækkunin er allt að 5%, en misjöfn eftir vörum og vöruflokkum. Í flestum tilfellum lækkar verð þó um 2-3%.

Það vakti mikla athygli þegar greint var frá því fyrr í vikunni að nokkur fyrirtæki myndu hækka vöruverð vegna hækkunar frá birgjum. Þessi hækkun var þvert á það markmið sem stefnt var að með kjarasamningunum fyrir jól. Því vöktu fréttirnar hörð viðbrögð hjá ríkisstjórninni, fulltrúum vinnumarkaðarins og ekki síst almenningi.

Nú hafa fjölmörg fyrirtæki tilkynnt að þau muni ýmist lækka vöruverð, halda því stöðugu eða hætta við áður boðaðar hækkanir á vöruverði.