Samkvæmt verðkönnun ASÍ á jólamatvörum í níu matvöruverslunum á höfuðborgarsvæðinu eru verslanir Bónus oftast með lægsta verðið á vörum sem algengar eru fyrir jólahátíðina. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Verðlagseftirliti ASÍ.

Þar segir að kannað var verð á 105 algengum vörum sem eru í boði fyrir jólahátíðina. Bónus Nýbýlavegi var með lægsta verðið í 77 tilvikum af 105, Krónan Granda í 10 tilvikum og Víðir Skeifunni 9 sinnum. Samkaup-Úrval Hafnarfirði var með hæsta verðið í 32 tilvikum af 105, Iceland Engihjalla í 27 tilvikum og Nóatúni í Nóatúni í 17 tilvikum. Oftast var á milli 25-50% verðmunur á hæsta og lægsta verði.

Mestur munur á hæsta og lægsta verði í könnuninni reyndist vera á grænmeti og ávöxtum. Mestur verðmunur var á ódýrustu fersku jarðaberjunum en þau voru dýrust á 3.495 kr/kg hjá Hagkaupum en ódýrust á 1.709 kr/kg hjá Krónunni, verðmunurinn er 1.786 kr. eða 105%. Einnig var mikill verðmunur á SFG forsoðnum parísarkartöflum 2*300 gr sem voru dýrastar á 498 kr. hjá Nettó Mjódd og Fjarðarkaupum en ódýrastar á 307 kr. hjá Hagkaupum verðmunurinn 191 kr. eða 62%.

Nánari upplýsingar um verðkönnunina er að finna á vef ASÍ.