Samkvæmt verðlagseftirliti ASÍ var verslunin Bónus Korputorgi oftast með lægsta verðið þegar verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð í lágvöruverðsverslunum, stórmörkuðum og klukkubúðum víðsvegar um landið þriðjudaginn 12. ágúst. Hæsta verðið var oftast að finna í verslun 10/11 Laugalæk eða í næstum helming tilvika og hjá Samkaupum-Strax í Hófgerði í þriðjungi tilvika. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá ASÍ.

Bónus var með lægsta verðið í um 70% tilvika, en Krónan Lindum og Fjarðarkaup í 10% tilvika. Verðmunurinn á hæsta og lægsta verði vöru var oftast milli 25 og 75 prósent, en í um 20% tilvika var meira en 75% verðmunur. Mesti verðmunur í könnuninni var hins vegar 147%.

Flestar vörurnar sem skoðaðar voru í könnuninni voru fáanlegar hjá Hagkaupum eða 100 af 103 vörum. Minnsta úrvalið var hjá 10/11 eða 64 af 103.

Mikill verðmunur í öllum vöruflokkum

Af þeim 103 vörum sem skoðaðar voru, var munur á hæsta og lægsta verði sjaldan undir 25%, oftast var hann á milli 25-75% og í um 20% tilvika var yfir 75% verðmunur. Minnstur verðmunur var á G-mjólk 250 ml. sem var ódýrust á 78 kr. hjá Bónus, Krónunni, Iceland og Víði en dýrust á 85 kr. hjá Kjarval verðmunurinn var því 7 kr. eða 9%. Mestur verðmunur í könnuninni var á ódýrustu fáanlegu gulu paprikunni, sem var dýrust á 985 kr. hjá Víði Skeifunni en ódýrust á 398 kr. hjá Bónus sem er 587 kr. verðmunur eða 147%.

Mikill verðmunur á LU kexi

Af þeim vörum sem til voru í öllum verslunum má nefna að mikill verðmunur er á LU TUC bacon kexi 100 gr. sem var ódýrast á 139 kr. hjá Bónus en dýrast á 259 kr. hjá 10/11 sem er 86% verðmunur. Annað dæmi um mikinn verðmun má nefna skólakæfu frá SS sem var ódýrust á 1.660 kr./kg. hjá Bónus en dýrust á 2.270 kr./kg. hjá Samkaupum-Strax sem er 610 kr. verðmunur eða 37%. Sykurmolarnir frá Dansukker 500 gr. voru ódýrastir á 388 kr. hjá Krónunni en dýrastir á 489 kr. hjá Samkaupum-Strax sem er 101 kr. verðmunur eða 26%. Rjómasúkkulaði frá Síríus 150 gr. var ódýrast á 257 kr. hjá Bónus en dýrast á 399 kr. hjá Samkaupum-Strax og 10/11 sem er 55% verðmunur.

Könnunin var gerð á sama tíma í eftirtöldum verslunum: Bónus Korputorgi, Krónunni Lindum, Nettó Mjódd, Iceland Vesturbergi, Fjarðarkaupum Hafnarfirði, Nóatúni Nóatúni, Samkaupum-Úrval Hafnarfirði, Hagkaupum Kringlunni, Víði Skeifunni, 10/11 Laugalæk, Samkaupum-Strax Hófgerði, Kaskó Húsavík og Kjarval Hvolsvelli.