*

þriðjudagur, 26. október 2021
Innlent 6. september 2021 14:52

Bónus opnar nýja verslun á Akureyri

Bónus mun opna nýja tvö þúsund fermetra verslun að Norðurtorgi á Akureyri næsta vor.

Ritstjórn
Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónus

Ný matvöruverslun Bónus verður opnuð í verslunarkjarnanum að Norðurtorgi á Akureyri vorið 2022, en samningar hafa verið undirritaðir þar um. Verslunin verður ríflega 2.000 fermetra að stærð og verður staðsett við hlið verslana Rúmfatalagersins og ILVA sem þegar eru  á Norðurtorgi. Bónus rekur í dag tvær verslanir á Akureyri við Langholt og Kjarnagötu.

Í fréttatilkynningu segir að sérstök áhersla verði lögð á að koma norðlenskri framleiðslu á framfæri í verslunum Bónus á Akureyri. Jafnframt segir að öll hönnun og tækjabúnaður nýju verslunarinnar við kælingu matvæla, lýsingu og flokkun sorps hafi verið valin með það að leiðarljósi að lágmarka umhverfisspor og styðja við sjálfbærni.

Guðmundur Marteinsson framkvæmdastjóri Bónus:

„Við erum afar ánægð með að samningar hafi náðst um verslun á Norðurtorgi sem við lítum á sem framtíðarstaðsetningu í verslun á Norðurlandi.  Með versluninni munum við efla enn frekar þjónustu við íbúa Akureyrar og nærsveita og um leið þess fjölda ferðamanna sem sækir svæðið heim.

Á Norðurtorgi eru fyrir öflugar verslanir og opnun Bónus mun styrkja verslunarkjarnann enn frekar þar sem að Bónus býður sama lága verðið um allt land og fjölbreytt vöruúrval. Mjög gott aðgengi verður að versluninni, með fjölda bílastæða, hreinlætisaðstöðu og rafhleðslustöðvum. Í næsta nágrenni er framtíðaruppbyggingarsvæði fyrir íbúðabyggð og því teljum við staðsetninguna afar góða til framtíðar litið.

Það er svo sérlega ánægjulegt hvað sveitastjórnir landsbyggðarinnar taka vel á móti okkur og skilja vel vilja íbúa á svæðinu þegar kemur að verslun. Einnig vonumst við til að norðlenskir ræktendur og framleiðendur sjái tækifæri til þess að auka framleiðslu sína með auknu framboði á verslun á svæðinu.“

Stikkorð: Bónus Norðurtorg