Bónus hefur fest kaup á lóðinni Norðlingabraut 2 og hyggst opna þar verslun um mitt árið 2023. Þetta kom fram á fjárfestafundi Hagar í morgun. Seljandi lóðarinnar er verktakafyrirtækið Jáverk.

Finnur Oddsson, forstjóri Haga, sagði á fundinum að þar myndu Hagar reisa þrjú þúsund fermetra byggingu. Bónusverslun verður tæplega tvö þúsund fermetrar en önnur verslun og þjónusta verður í hinum þriðjungi byggingarinnar. „Þar verður önnur verslun og þjónustustarfsemi fyrir nærumhverfið sem hefur í raun ekki verið vel sinnt af verslun og þjónustu en það er engin matvöruverslun í hverfinu í dag,“ sagði Finnur.

Þá yrði verslunin verslunin vel staðsett, við stofnbrautir og nærri ökuleiðinni út úr borginni um Suðurlandsveg.

Sjá einnig: Hagar högnuðust um 4 milljarða

Bónus mun einnig opna nýja verslun í maí að Norðurtorgi á Akureyri . Nokkrar breytingar voru gerðar hjá Bónus í fyrra, til að mynda var opnunartími lengdur í sautján verslunum. Finnur Oddsson, forstjóri Haga, sagði að þær breytingar hefðu mælst vel fyrir og skilað sér í fleiri heimsóknum og aukinni sölu.

Meðal annarra verslana sem Hagar hyggjast opna á næstunni eru nýir sölustaðir Lemon í Hagkaupum í Garðabæ og í Olís Gullinbrú.