Bónus skoðar möguleikana á því að flytja lífræna kjúklinga, það er kjúklinga sem ekki eru ræktaðir í verksmiðjubúum, til landsins. VB.is greindi frá því í dag að Fjarðarkaup er eina stórverslunin sem selur lífrænt ræktaða kjúklinga, sem heildverslunin INNNES flytur inn. Lifandi markaður hefur svo keypt lífrænt ræktaða fugla af Fjarðarkaupum og selt í verslunum sínum.

„Við erum að skoða bara hvaða möguleikar eru í stöðunni. Málið er að lífrænir kjúklingar eru ekki ræktaðir á Íslandi og það er samt á þessu full vernd. Þannig að það er í raun ekki hægt að flytja þetta inn nema á einhverjum ofurtollum. Og þá er búið að gera vöruna svo óspennandi að það er eiginlega ekkert hægt að flytja hana inn“ segir Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónuss.

Hann segir að forsvarsmenn Bónus tali reglulega um þessi mál við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið sem fer með landbúnaðarmál. „En það er við ramman reip að draga. Þeir eru harðir,“ segir Guðmundur. Hann segir að það virðist vera alveg sama hver rökin eru, varan virðist alltaf þurfa að bera full gjöld. „Við erum að selja hérna tilbúnar Pekingendur og erum að borga af því full gjöld þótt engar endur séu ræktaðar hér á Íslandi,“ segir Guðmundur Marteinsson sem segist þó ekki hættur að reyna.