Vegna umfjöllunar um kaupaukagreiðslur til starfsmanna og stjórnar Klakka hefur fyrirtækið sent frá sér fréttatilkynningu þar sem þeir segja ákvörðunina að undirlagi erlendra eigenda þess sem eiga um ríflega 80% hlutafjár.

Taka þeir sérstaklega fram að upphæðirnar sem nefndar hafa verið séu ekki endanlegar heldur sé um hámarksgreiðslur sé að ræða, sem hugsaðar séu til þess að allir sem að sölunni komi hafi fjárhagslega hagsmuni af því að fá sem allra hæst verð fyrir félagið.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um hafa ýmsir hneykslast á upphæðunum og má þar nefna Ragnar Þór Ingólfsson formann VR, sem segist hafa átt erfitt með að hemja tilfinningar sínar þegar hann las fréttir um málið.

Fréttatilkynningin fer hér á eftir:

Það er skiljanlegt að stórar upphæðir eins og þær sem nefndar hafa verið sem mögulegar kaupaaukagreiðslur hjá Klakka veki athygli og spurt sé hver taki ákvörðun um þær. Svarið við því er eigendur félagsins.

Ríflega 80% hlutafjár Klakka er, beint og óbeint, í eigu erlendra aðila og er frumkvæðið að kaupaukagreiðslunum alfarið þeirra þó að stjórn hafi fjallað um útfærsluna og að beiðni þeirra lagt hana fyrir hluthafafund til samþykktar.

Þá skal minnt á að þær upphæðir sem fram hafa komið í fjölmiðlum eru ekki endanlegar heldur eru það hámarksgreiðslur vegna heildareigna Klakka sem koma aðeins til ef mjög hátt verð fæst fyrir Lykil. Greiðslurnar geta orðið mun lægri eða jafnvel engar.

Sérstök áhersla er á að kynna söluferli Lykils fyrir erlendum kaupendum og eigendur Klakka telja mikilvægt að allir sem að sölunni komi hafi beina fjárhagslega hagsmuni af því að sem allra hæst verð fáist fyrir félagið, eigendum þess til hagsbóta.