Kaupauki starfsmanna tryggingafélaga má ekki vera hærri en sem nemur 25% af árslaunum starfsmanns án kaupaukans. Þá skal fresta greiðslu hluta af kaupaukanum um að lágmarki 3 ár. Þannig skal taka tillit til sveiflna í viðskiptalífinu og hagkerfinu sem geta haft áhrif á árangur.

Fjármálaeftirlitið birti í vikunni nýjar reglur um kaupaukakerfi vátryggingafélaga. Við gerð þeirra var höfð hliðsjón af sambærilegum reglum um kaupaukakerfi fjármálafyrirtækja.

FME féllst ekki á afstöðu umsagnaraðila um að ekki skyldi taka mið af stöðu á fjármálamörkuðum við árlega endurskoðun reglnanna. Að mati FME hafa sviptingar á fjármálamarkaði áhrif á vátryggingastarfsemi og þar af leiðandi sé ástæða til að taka tillit til þeirra við endurskoðun.