Breskir bankamenn sjá enn ástæðu til þess að borga sér háa bónusa fyrir „vel unnin störf“. Bónusgreiðslurnar hafa vakið reiði hjá almenningi í Bretlandi, sem nú sýpur seyðið af því að hafa bjargað bönkum haustið 2008.

Eric Daniels, sem hætta mun sem forstjóri Lloyds Banking Group í mars nk., fær þá um tvær milljónir punda í  starfslokasamning, eða sem nemur um 366 milljónum króna. Robert Peston, viðskiptaritstjóri breska ríkisútvarpsins BBC, greindi frá þessu á bloggi sínu í vikunni en hann hefur undanfarna daga fjallað ítarlega um bónusgreiðslur æðstu stjórnenda breskra banka, sem margir hverjir eru nú í fangi ríkisins eftir björgunaraðgerðirnar haustið 2008. Breskir skattgreiðendur súpa nú seyðið af þeim aðgerðum með hærri sköttum, niðurskurði á þjónustu og versta efnahagsástandi í Bretlandi frá því í kreppunni miklu.

Bónus fyrir „vel unnin störf“

Þrátt fyrir erfitt efnahagsumhverfi og beina eign breska ríkisins í nokkrum af stóru bönkunum, þar á meðal Royal Bank of Scotland og Lloyds, hafa breskir bankamenn ekki látið af þeim sið að greiða háa bónusa fyrir „vel unnin störf“ eins og það er
orðað. Reiði almennings í Bretlandi, og raunar stjórnmálamanna úr öllum flokkum, snýr að því hvort það sé sanngjarnt að greiða þessa bónusa. Í tilfelli Royal Bank of Scotland (RBS) er málið sérstaklega umdeilt. Breska ríkið á þann banka nánast að öllu leyti og fer því með stjórn hans, en hlutur ríkisins í Llyods bankanum er 41%.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir Tölublöð.