Deutsche Bank, stærsti banki Þýskalands, hefur lagt til hliðar hærri fjárhæð en í fyrra til að greiða starfsmönnum fjárfestingabankasviðs kaupauka. Upphæðin hefur hækkað um 9% frá því fyrir um ári síðan.

Kostnaður vegna kaupauka starfsmanna Deutsche Bank nam 4,62 milljörðum evra á fyrstu níu mánuðum ársins, samkvæmt Reuters fréttastofu. Á fyrstu níu mánuðum ársins 2009 nam fjárhæðin 4,24 milljörðum evra.

Auknar greiðslur í formi kaupauka til starfsmanna eru í takti við auknar tekjur félagsins sem hafa aukist um 7% á fyrstu níu mánuðum ársins.