Bankar víðs vegar um Evrópu rembast nú við að breyta launasamningum við forstjóra og lykilstarfsmenn fyrir enda þessa mánaðar til að uppfylla nýjar kröfur ESB um bónusgreiðslur. Reglurnar fela í sér að hluthafafundir þurfa að samþykkja slíka samninga og nú styttist í aðalfundi flestra stórra banka.

„Tímasetningin gæti ekki verið erfiðari,“ hefur Financial Times eftir einum meðlimi kjaranefndar ónefnds banka sem er með aðalfund í maí.

Nýju reglurnar mæla fyrir um að bónusgreiðslur megi ekki vera hærri en venjulegar launagreiðslur til starfsmanna, en hægt er að tvöfalda þá upphæð með sérstakri heimild hluthafa viðkomandi banka. Reglurnar taka gildi í janúar á næsta ári.

Í frétt FT segir að afleiðingarnar verði líklegast þær að laun stjórnenda muni hækka umtalsvert, bæði til að vega upp á móti bónusgreiðslum sem nú verða óheimilar og líka til að auka svigrúm til að greiða þá bónusa sem þó eru heimilir. Meðallaun forstjóra eru nú um 1,5 milljón punda á ári, andvirði um 283 milljóna króna. Samkvæmt heimildum FT má búast við því að launin hækki upp í að minnsta kosti tvær milljónir punda og gætu orðið allt að 3,5 milljónir.

Takist bönkunum ekki að breyta samningum í tæka tíð til að leggja þá fyrir aðalfundi standi þeir frammi fyrir því að brjóta annað hvort reglurnar á næsta ári, eða að þurfa að kalla til aukahluthafafundi til þess eins að samþykkja launasamninga. Það muni hins vegar kalla yfir viðkomandi banka athygli, sem enginn vill.