Bónusverslun verður opnuð í Stykkishólmi 23. október næstkomandi. 10-11 hefur verið með verslun í Hólminum og verður henni lokað um næstu helgi og Bónusverslunin opnuð á sama stað eftir breytingar.

"Við höfum velt Vesturlandinu talsvert fyrir okkur um nokkurt skeið og þetta er sú lausn sem okkur þykir skynsamlegust, bæði fyrir okkur og viðskiptavini okkar," segir Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónus, um opnunina í Stykkishólmi í frétt á heimasíðu Bónus. Hann segir Haga hafa verið með 10-11 verslun í Hólminum og menn hafi tekið ákvörðun um að nýta það húsnæði undir Bónusverslun og loka 10-11.

"Það þarf talsvert mikið að gera fyrir húsnæðið en ég veit að Olís og bakaríið ætla að þjónusta bæjarbúa með allar helstu nauðsynjar á þessum tíma. Við skoðuðum ýmsa möguleika með að opna bráðabirgðaverslun þessa daga en það reyndist ekki gerlegt nema með miklum tilfæringum og kostnaði. Vonandi gengur þetta vel og við munum síðan opna laugardaginn 23. október og bjóða fólki í Hólminum sama verð og alls staðar annars staðar í Bónus á landinu," segir Guðmundur.

"Ég er ánægður með viðbrögð íbúanna en get því miður ekki sagt það sama um þá sem eiga að vera að vinna að hagsmunum íbúa svæðisins, þ.e. þingmenn svæðisins. Það heyrist lítið frá þeim," segir Guðmundur í áðurnefndri frétt.