Engar eignir fundust upp í 844,8 milljóna króna kröfur þrotabús Bónusvídeós. Myndbandaleigan var tekin til gjaldþrotaskipta í júní árið 2009 og lauk skiptum 14. desember síðastliðinn. Fram kemur í Lögbirtingablaðinu í dag að lýstar kröfur auk áfallinna vaxta og kostnaðar hafi numið 844.821.872 krónum en ekkert fengist upp í þær. Gjaldþrotið jafngildir um ársveltu Bónusvídeóss, samkvæmt upplýsingum frá skiptastjóra þrotabúsins.

Kröfurnar skýrast að langmestum hluta af tæplega 300 milljóna króna gengisláni sem Íslandsbanki veitti árið 2007 við eigendaskipti á vídeóleigunni. Það tvöfaldaðist í hruninu við gengishrun krónunnar og þyngdi reksturinn til muna. Á sama tíma dró úr útleigu á myndböndum með tilkomu leigu mynda á netinu.

Veð fyrir láninu voru hlutabréfin í leigunni. Við lánið bættust skattaáætlanir og launakröfur.

Síðuru leifarnar af myndbanda- og diskasafni Bónusvídeó voru seldar í Vídeóhöllinni í Lágmúla. Vídeóhöllin lokaði um síðustu mánaðamót.