*

þriðjudagur, 30. nóvember 2021
Innlent 8. nóvember 2018 17:15

Booking ver stórfé í Google auglýsingar

Ferðarisinn Booking ver um 40 milljörðum króna á mánuði í Google auglýsingar.

Ritstjórn
Ferðamenn treysta í auknum mæli á netið í stað „hefðbundnari" leiða til að skipuleggja ferðalög.
Haraldur Guðjónsson

Ferðarisinn Booking varði nálægt milljarði dollara á síðasta ársfjórðungi, um 120 milljörðum króna, í auglýsingar á Google, eða sem samsvarar um 40 milljörðum króna á mánuði. Fyrirtækið á meðal annars bókunarsíðurnar Booking.com, Priceline og Kayak.

Booking treystir mjög á að birtast ofarlega á leitarsíðum þegar ferðalangar leita að flugferðum eða hótelherbergjum víða um heim. Þar skipti auglýsingar á Google mestu máli.

CNBC hefur eftir Mark Mahaney, greinanda hjá RBC Capital Markets, að Booking sé líklega einn af fimm stærstu viðskiptavinum Google. Booking treystir því í auknum mæli á Google. Leitarvélarisinn er nefndur 52 sinnum á nafn í síðasta árfjórðungsuppgjöri Booking. Bent er á að breytingar á því hvernig Google raði efstu leitarniðurstöðum geti haft veruleg áhrif á umferð um vefsíður Booking.

Íslenskir ferðaþjónustuaðilar nýta Booking.com í talsverðum mæli og hafa kvartað undan háum þóknunum síðunnar og hörðum skilmálum.